Ferðamenn sem koma til landsins frá 1. júlí munu geta greitt fyrir skimun á Keflavíkurflugvelli og öðrum landamærastöðvum rafrænt áður en þeir fara af stað. Gjaldið verður þá 9 þúsund krónur, en 11 þúsund krónur fyrir þá sem kjósa að greiða fyrir skimunina við komuna til landsins.
Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag, þar sem rætt var um skimun fyrir kórónuveirunni á landamærum.
Katrín sagði að fylgst yrði með því hvort gjaldtakan myndi hafa fælingaráhrif fyrir ferðafólk, en stjórnvöld hefðu ákveðið að nauðsynlegt væri að innheimta gjald fyrir skimunina til þess að mæta þeim kostnaði sem til fellur við hana.
Forsætisráðherra sagðist einnig meðvituð um að margir hefðu nú áhyggjur af því smiti sem nú hefur komið upp hér innanlands, sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að sé sennilega eitt stærsta rakningarmál sem rakningarteymið hefur fengist við.
Eins og fram hefur komið eru nú á þriðja hundrað einstaklinga í sóttkví vegna samskipta við einn einstakling, knattspyrnukonu sem kom frá til Íslands frá Bandaríkjunum 18. júní. Að minnsta kosti einn einstaklingur hefur greinst með staðfest smit sem rakið var til konunnar og er það fyrsta innanlandssmitið sem greinist síðan í maí.
Katrín sagði að þessi smit minntu á að fólk þyrfti að halda vöku sinni, stríðinu við veiruna væri ekki lokið.