Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að harmleikurinn á Bræðraborgarstíg, þar sem þrír létust og tveir eru enn á gjörgæsludeild, sé með því óhugnanlegra sem gerst hafi í eldsvoðum hér á landi síðustu ár. „Maður hugsar til þessa fólks og þeirra aðstandenda. Þetta er alveg skelfileg staða.“
Að minnsta kosti tveir stukku út um glugga hússins í örvæntingu er eldurinn tók að læsa sig um það allt. Samkvæmt Þjóðskrá eru 73 skráðir þar til heimilis, allir eru þeir útlendingar utan eins Íslendings.
Klukkan 15.15. í gær barst slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um eld í húsi við Bræðraborgarstíg 1. Þegar var ljóst að fólk væri lokað inni í því. Ekki var hins vegar vitað hvar í húsinu það væri statt. „Þannig að fókusinn hjá okkur númer eitt, tvö og þrjú er lífbjörgun,“ segir Jón Viðar í samtali við Kjarnann. „Síðan er slökkvistarfið eitthvað sem kemur í kjölfarið.“
Um leið og slökkviliðsmenn komu á vettvang hófu þeir því að bjarga fólki út um glugga hússins. Aðstæður voru mjög erfiðar að sögn Jóns Viðar. „Síðan er vitað af tveimur inni og við reynum að senda inn reykkafara til þess að leita. En ég þarf síðan að taka menn út, bæði vegna þess að hitinn er orðinn svo mikill og það er farið að hrynja undan mönnum og ofan á þá. Þannig að það er ekki ásættanlegt að setja þá í þá áhættu sem því fylgdi.“
Jón Viðar að segir að allt starfið hafi áfram litast af þeirri vitneskju að fólk væri enn inni í húsinu. „En það var mat að það væri ekki lengur um lífbjörgun að ræða heldur að verja [næstu hús].“
Reykkafararnir náðu að leita um aðra hæð hússins áður en þeir urðu frá að hverfa og því varð ljóst að fólkið sem var lokað inni var á efri hæð.
Jón Viðar segir ekkert enn vitað um eldsupptökin. Lögreglan fari með rannsókn á því. „Eina sem blasti við okkur þegar við komum á vettvang er að þetta var ansi mikill bruni og hröð atburðarás. Þannig að þetta varð strax stórt og mikið verkefni sem við vorum að glíma við.“
Hvað olli því að eldurinn varð jafn útbreiddur og öflugur eins og raunin varð verður hluti af rannsókninni sem nú fer í hönd. Jón Viðar segir að myndir séu til af brennandi húsinu fljótlega eftir að eldurinn kom upp. „Þannig að það eru ýmsir hlutir sem hægt er að nýta til að ramma inn einhverja mynd af þessari atburðarás. En hún í raun liggur ekki fyrir fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.“
Hann segir líka enn óljóst hvar eldurinn kom upp.
Auk lögreglu mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun rannsaka brunann líkt og henni ber að gera samkvæmt lögum er andlát verður í eldsvoða.
Í gagnagrunni slökkviliðsins er að finna nokkurra ára gamla umsókn eigenda hússins þar sem sótt er um að breyta því í gistiheimili. „Þá komum við fram með ákveðnar og umfangsmiklar kröfur um bætur á eldvörnum svo það gæti flokkast sem gistiheimili. En svo heyrðum við aldrei meira. Og síðan höfum við ekkert frétt af þessu húsi,“ segir Jón Viðar.
Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá því í janúar árið 2014 er að finna fyrirspurn frá HD verk ehf. varðandi breytta notkun á jarðhæð hússins að Bræðraborgarstíg 1 úr verslun og leikskóla í gistiheimili. Sótt var um leyfi til þess að innrétta gistiheimili með sjö herbergjum og gistiaðstöðu fyrir 14 gesti. Á það féllust fulltrúar meirihlutans ekki með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Í frétt Morgunblaðsins um málið er rifjað upp að húsnæðið hafi komist í fréttir árið áður vegna Leikskólans 101 sem var þar til húsa en lögreglan rannsakaði þá m.a. starfsemi hans vegna meints harðræðis. Í framhaldinu hafi eigandi hússins ákveðið að loka leikskólanum. Í fréttinni er haft eftir Heiðari Reynissyni, eiganda hússins, að hann vilji innrétta litlar stúdíóíbúðir í húsinu og leigja ferðamönnum yfir sumarið og námsfólki yfir veturinn. „Þetta er atvinnuhúsnæði og hefur alltaf verið,“ er haft eftir Heiðari sem var mjög ósáttur við niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs.
Verslun, leikskóli og brauðgerð
Í greinargerð sem lögð var fyrir ráðið kemur fram að margvísleg starfsemi hafi verið rekin í húsinu í sextíu til sjötíu ár, meðal annars verslun og brauðgerð. Þá kom þar ennfremur fram að ekki stæði til að breyta jarðhæð hússins í íbúðarhúsnæði enda hafi húsið á sínum tíma verið byggt sem atvinnuhúsnæði.
Árið 2010 fékkst hins vegar heimild byggingafulltrúans í Reykjavík til að breyta 1. hæð og kjallara hússins við hliðina, Bræðraborgarstígs 3, í gistiheimili. Í fréttum Stundarinnar frá árinu 2015 kom fram að það væri í eigu sömu aðila og Bræðraborgarstígur 1; HD verks ehf. Greinir Stundin m.a. frá því að lögreglan hefði á stuttum tíma lokað því gistiheimili í þrígang þar sem það væri starfrækt án rekstrarleyfis.
Tuttugu herbergi
Í byrjun árs var Bræðraborgarstígur 1 auglýstur til sölu. Í auglýsingu fasteignasölunnar kemur fram að húsið sé rúmlega 452 fermetrar, það sé fjölbýlishús og í því tuttugu herbergi. „Húsið er fjöleignarhús, byggt úr steinsteypu og timbri árið 1906 og 1944 og saman stendur það af einum matshluta,“ stóð í auglýsingunni. „Íbúðar- og atvinnuhúsnæðið Bræðraborgarstígur 1 er samtals tvær hæðir ásamt ris hæð og þakrými sem skiptist þannig, eitt atvinnurými, dagheimili og tvö íbúðarrými og skrifstofu rými samkvæmt Fasteignaskrá Þjóðskrár. Birt flatarmál eignarinnar er 452,3 fermetrar. Lóðin er 531,3 fermetrar og á henni eru þrjú bílastæði. Húsnæðið er í dag leigt út sem 18 herbergi og ein tveggja herbergja íbúð og er öll í útleigu. Tækifæri fyrir framkvæmda aðila að þróa eignina áfram. Laus strax.“
Kjarninn spurði Jón Viðar slökkviliðsstjóra almennt út í ábyrgð á eldvörnum í húsnæði. Sagði hann að alveg óháð því hvort um atvinnu-eða íbúðarhúsnæði sé að ræða sé það eigandi sem beri ábyrgð. „Það er til mjög góð umgjörð í kringum alla þessa hluti. Þegar fólk ætlar að breyta húsnæði, óháð því hvernig húsnæði það er, þá á það að leggja fyrir beiðni um breytingu á gildandi byggingarleyfi hjá byggingarfulltrúa. Um leið og það er gert þá náttúrlega hefst skoðun fagmanna á því hvort að þær breytingar sem lagðar eru til standist kröfur um eldvarnir og aðrar kröfur sem eru gerðar til húsnæðis.“
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur einbeitt sér sérstaklega að atvinnuhúsnæði síðustu ár. „Því miður virðist vera að margir húseigendur séu ekki að gæta að eldvörnum í sínu húsnæði,“ segir Jón Viðar. „Og við höfum í gegnum tíðina lokað húsnæði þar sem eldvarnirnar voru bara algjörlega óásættanlegar. En síðan höfum við líka verið að samþykkja atvinnuhúsnæði þar sem eldvarnir voru til fyrirmyndar. Þannig að það að búa í atvinnuhúsnæði þýðir ekkert endilega að eldvarnir séu lélegar. Þær geta verið mjög góðar. Fjölbreytnin í þessu er mikil eins og í íbúðarhúsnæði. Þannig að menn þurfa alltaf að vera á tánum varðandi eldvarnir. Alveg sama hvort að menn búi í skilgreindu íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði.“
Í húsinu við Bræðraborgarstíg 1 voru skráðir 73 til lögheimilis. Að sögn Jóns Viðar segir skráningin augljóslega ekki til um þann fjölda sem þar bjó. „Það hefur blasað við okkur í nokkrum tilvikum að gífurlegur fjöldi er skráður [til heimilis] í húsnæði. En þá er þetta einhverskonar leppur í sjálfu sér. Það eiga auðvitað ekki sjötíu manns heima þarna, þeir myndu ekki komast fyrir.“
Jón Viðar bendir á að slökkviliðið sé stöðugt að reyna að koma sömu skilaboðunum áleiðis: „Að það að eiga húsnæði – í því fellst ákveðin ábyrgð. Og að leigja húsnæði – í því flest frekari ábyrgð. Þess vegna eru ákveðnar kröfur um eldvarnir en síðan eru strangari kröfur í eldvörnum varðandi gistiheimili. Því þá þekkir fólk ekki til, flóttaleiðir og annað. Og eftir því sem gistiheimilið stækkar þá eru gerðar meiri kröfur. Menn verða að vera meðvitaðir að eldvarnir séu í takt við það sem er í húsinu. [M]enn verða að fara að virða lög og reglur í kringum svona hluti.“
Hann grípur til samlíkingar: „Við viljum ekki að það sé bremsulaus bíll keyrandi um göturnar hægri vinstri allan daginn. Og að það væri einhver spurning um hver bæri ábyrgð á því að laga bremsurnar. Mjög líklega eigandinn.“
Algjörlega skýrt að eigandi ber ábyrgð
Jón Viðar segir „algjörlega“ skýrt hver beri ábyrgð á því að eldvarnir séu í lagi. Það sé eigandinn.“
Í lögum um brunavarnir frá árinu 2000 segir í 23. grein um skyldur eigenda og forráðamanna mannvirkja: „Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.
Einnig segir: „Eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum [...]“
Og svo: „Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í því, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarfulltrúa og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi.“
Var búið að koma upp gistiheimili án leyfis [á Bræðraborgarstíg 1]?
„Þannig blasir það við okkur og að þetta sé eitthvað sem þurfi að skoða betur,“ svarar Jón Viðar en segist ekki geta fullyrt um það á þessari stundu. Enn eigi eftir að fara nákvæmlega ofan í öll gögn slökkviliðsins um þetta tiltekna húsnæði. „Það þarf aðeins að virða það við okkur að í dag erum við reyna að komast út úr atburðum gærdagsins og hlúa að okkar fólki, að veita því áfallahjálp. Þetta var gífurlega erfitt verkefni fyrir fólkið okkar og ég tala nú ekki um aðstandendur þeirra sem létust.“