Framkvæmdir við kísilver fyrirtækisins PCC BakkiSilicon hf. hófust á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík árið 2015, eftir nokkurra ára undirbúning. Í fréttum frá þeim tíma kom fram að um 40 milljarða fjárfestingu væri að ræða og talað var um að verksmiðjan ætti að skapa um 120 störf til framtíðar.
Núna á fimmtudag, einungis rúmum tveimur árum eftir að verksmiðjan kveikti í fyrsta sinn á ofnum sínum, greindi fyrirtækið hins vegar frá því að búið væri að segja upp um 80 starfsmönnum og að slökkt yrði báðum ljósbogaofnum verksmiðjunnar tímabundið í lok júlí. Þetta segir fyrirtækið gert vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, sem hafi dregið úr spurn eftir kísilmálmi og valdið verðlækkunum á heimsmarkaði.
Ekki er ljóst hvenær hægt verður að gangsetja ofnana á ný, en Rúnar Sigurpálsson forstjóri kísilverksmiðjunnar sagði við mbl.is fyrir helgi að hann gæti ekki sagt til um hvort framleiðslustöðvunin yrði sex mánuðir, tólf mánuðir eða jafnvel lengri. Heimsfaraldurinn er óúreiknanlegur, sagði forstjórinn, en ljóst er að vandræði verksmiðjunnar eru þó ekki nýtilkomin.
Rekstrarerfiðleikar komu fljótt fram
Rekstur verksmiðjunnar hefur verið erfiður allt frá upphafi, en frá því að kísilverið var gangsett vorið 2018 hafa bilanir og þungar aðstæður á hrávörumörkuðum sett mark sitt á hann.
Verksmiðjan er í meirihlutaeigu þýska stórfyrirtækisins PCC SE, sem á 86,5 prósent hlut, en innlendir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki eiga líka 13,5 prósent hlut í félaginu í gegnum fjárfestingafélagið Bakkastakk. Í apríl fjölluðu bæði Viðskiptablaðið og Fréttablaðið um að lífeyrissjóðir hefðu fært niður hlutafé sitt í Bakkastakki að öllu eða mestu leyti, vegna rekstraróvissunnar.
Þá hafði þýska móðurfélagið skömmu áður lagt PCC á Bakka til um 40 milljónir bandaríkjadala, meira en fimm milljarða íslenskra króna, í formi hluthafaláns, til þess að bæta lausafjárstöðu kísilversins og tryggja rekstrargrundvöll þess. Ljóst var orðið að leggja þyrfti félaginu til aukið rekstrarfé strax síðasta haust.
Auk þessara miklu fjárfestinga af hálfu eigenda kísilverksmiðjunnar hefur íslenska ríkið á ýmsan hátt liðkað fyrir því að verksmiðjan, sem nú er ekki talið hagkvæmt að halda í rekstri, kæmist í rekstur sem fyrsta fyrirtækið á iðnaðarsvæðinu við Bakka.
Þar höfðu heimamenn á Húsavík lengi haft hugmyndir um að byggja upp orkufreka iðnaðarstarfsemi, sem knýja mætti áfram með því að beisla orku náttúruauðlinda í nágrenninu. Alcoa var með stórt álver á teikniborðinu á Bakka árum saman, en af þeirri framkvæmd varð ekki.
Árið 2014 samþykkti ESA, eftirlitsstofnun EFTA, að ríkissjóður og sveitarfélagið Norðurþing mættu veita tæplega fjögurra milljarða króna ríkisaðstoð frá til framkvæmdarinnar, í formi beins fjárstyrks til lóðarframkvæmda, afslátta á tekjuskatti, fasteignaskatti og hafnargjöldum, auk niðurfellingu á ýmsum sköttum og gjöldum til allt að tíu ára. Áður hafði ESA samþykkt ríkisaðstoð til Hafnarsjóðs Norðurþings vegna byggingar iðnaðarhafnar á Húsavík, sem tengdist uppbyggingunni á Bakka.
Jarðgöng sem tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavíkurhöfn varð helsti kostnaðarliðurinn sem ríkið tók á sig, en heildarkostnaður ríkisins vegna jarðganganna undir Húsavíkurhöfða og vegtengingum við þau nam rúmum 3,5 milljörðum króna með verðbótum.
Hann varð rúmlega 1,7 milljarði hærri en upphaflega var gert ráð fyrir, samkvæmt því sem fram kom í svari Þórdís Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra iðnaðarmála við fyrirspurn Birgir Þórarinssonar þingmanns Miðflokksins í lok janúar í fyrra.
Virkjað að Þeistareykjum til að veita orku á Bakka
Einnig virkjaði Landsvirkjun á jarðvarmasvæðinu að Þeistareykjum og Landsnet lagði tugkílómetra háspennulínur til þess að orkufrekur iðnaður á borð við kísilver geti starfað á Bakka, en enn sem komið er kísilver PCC eina verksmiðjan sem hefur risið á svæðinu.
Samkvæmt fréttum frá árinu 2015, þegar framkvæmdir hófust og eftirlitsstofnun EFTA var búin að leggja blessun sína yfir að í raforkusamningi Landsvirkjunar við PCC fælist ekki ólögmæt ríkisaðstoð, var gert ráð fyrir því að kostnaður við Þeistareykjavirkjun yrði 5 milljarðar og kostnaður við línulagnir Landsnets 1,5 milljarðar króna.
Árleg orkuþörf kísilversins þegar það framleiðir á fullum afköstum er 456 þúsund megavattstundir, en fram kom í Fréttablaðinu í gær að framleiðslustöðvun PCC á Bakka gæti kostað Landsvirkjun yfir 300 milljónir króna á ársgrundvelli, sé miðað við að verksmiðjan kaupi rafmagn á 25 dollara á megavattstund og hafi 80 prósenta lágmarkskaupskyldu.
Ekki fæst þó uppgefið hjá PCC hversu mikið af umsaminni orku kísilverksmiðjan þarf að greiða fyrir á meðan framleiðslustoppið varir, samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins.
Högg
Ljóst er að væntanleg rekstrarstöðvun kísilversins er högg fyrir samfélagið á Húsavík og í Norðurþingi öllu, enda hafa umsvifin sem fylgdu rekstrinum verið mikil. Sveitarstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu á fimmtudag þar sem fram kom að hugur þeirra væri hjá starfsmönnum sem hefðu misst vinnuna og fjölskyldum þeirra, en fram hefur komið að flestir þeirra sem missa vinnuna eru bara með eins eða tveggja mánaða langan uppsagnarfrest.
„Allir munu leggjast á eitt til að samfélagið komist sem fyrst í gegnum þessa stöðu. Allar forsendur eru fyrir því að í Norðurþingi geti atvinnulíf og samfélag tekið vel við sér í kjölfar heimsfaraldursins. Á svæðinu eru auðlindir, innviðir og tækifæri til frekari uppbyggingar atvinnulífsins sem brýnt er að verði nýtt,“ sagði í yfirlýsingu sveitarstjórnarinnar.
Setja þurfi „meiri kraft“ í að koma upp starfsemi á Bakka
Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna hafa einnig tjáð sig um stöðuna. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnhagsráðherra sagði við RÚV á föstudag að ákvörðunin væri mikið högg, sem þjóðarbúið finni fyrir. Hann sagði að staða fyrirtækja í orkufrekum iðnaði á Íslandi væri almennt áhyggjuefni um þessar mundir.
Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra byggðamál sagði sömuleiðis við RÚV á föstudag að meta þyrfti áhrifin af þessu áfalli fyrir samfélagið í Norðurþingi. Hann sagði einnig að setja þyrfti „meiri kraft“ í að koma upp fleiri atvinnutækifærum á iðnaðarsvæðinu við Bakka, þar sem það hefði ekki tekist hingað til.