Í ljósi þess að tvö virk smit hafa greinst hjá Íslendingum nokkrum dögum eftir að þeir komu til landsins, eftir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr landamæraskimun, ætlar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að leggja það til að Íslendingar og aðrir sem búsettir eru hér fari í sóttkví í nokkra daga við komuna. Áfram fari þeir í skimun við landamærin. Verði hún jákvæð fer viðkomandi í einangrun en verði hún neikvæð þarf viðkomandi að fara í sóttkví og er svo boðið að fara í aðra sýnatöku að fjórum til fimm dögum liðnum.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur frá því að Íslendingur hefði greinst með smit í gær eftir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu við komuna til landsins 20. júní. Sá var að koma frá Albaníu og telur Þórólfur líklegt, þó enn eigi eftir að raðgreina veiruna, að smitið sé upprunnið þar í landi.
Fjögur smit greindust í landinu í gær. Þrír greindust í landamæraskimun og reyndust tvö smitin gömul og fólkið því ekki smitandi. Niðurstöðum úr mótefnamælingu á þriðja ferðamanninum er að vænta síðar í dag. Eitt smit greindist hjá veirufræðideild Landspítalans eins og að ofan er rakið.
„Það sem við höfum gert núna er rétt,“ sagði Þórólfur spurður um hvort það hefðu verið mistök að opna landamærin og bjóða upp á skimun. Hann sagði að alltaf hafi verið ljóst að niðurstöður úr þeirri skimun yrði ekki óyggjandi og að í reglum sem ferðamenn fá sé þeim uppálagt að fara gætilega, vera nánast í sóttkví, í tvær vikur eftir komuna. Fyrirkomulagið með skimun lágmarki áhættuna en komi aldrei alveg í veg fyrir að veiran komi hingað. „Það er það sem málið snýst um.“
Að opna landamærin eftir sex mánuði hefði aðeins þýtt seinkun á því að veiran komi aftur til landsins. „Hún kæmi samt sem áður,“ sagði Þórólfur. „Þó að við hefðum beðið hefðum við verið í akkúrat sömu sporum þá.“
Það að láta Íslendinga og aðra sem búsettir eru hér fara í sóttkví en ekki aðra útlendinga byggir á því að það hefur oftsinnis sýnt sig að tengslanetið sem fólk á hér á landi skiptir höfuðmáli. Fólk sem býr hér er með miklu meira tengslanet sem gerir það að verkum að miklu líklegra er að veiran smitist frá þeim en útlendingum sem hafa hér lítil eða engin tengsl. „Það sáum við í faraldrinum í mars og það sjáum við núna.“
Þórólfur segir að útfærsla á nýja fyrirkomulaginu, sem sé svipað því og var hér við lýði í vetur, liggi ekki fyrir að fullu en að mikilvægt sé að það komist til framkvæmda sem fyrst. Þó væri ljóst, samkvæmt reglugerð um greiðslu fyrir skimun við landamæri, að fólk þurfi ekki að borga fyrir próf númer tvö sé farið í það innan 30 daga.
1.100 komið til landsins með einkaflugi
Frá 15. júní hafa rúmlega 20 þúsund manns komið til landsins. Rúmlega 18 þúsund hafa komið í gegnum Keflavíkurflugvöll, um 800 með skipum og bátum og 1.100 með einkaflugi.
Af þessum fjölda hafa sýni verið tekin frá rúmlega 15 þúsund einstaklingum. Sex virk smit hafa greinst frá því að landamæraskimunin hófst.
Á þessum tveimur vikum hafa fjögur innanlandssmit, þ.e. smit sem fólk að utan hefur borið í aðra, greinst. Þau hafa öll komið frá Íslendingum.
Hann vildi ekki meina að með hinu nýja fyrirkomulagi væri verið að stíga skref til baka í afléttingu takmarkana. „Þessi reynsla sýnir að þessi vinna og þessi nálgun með smitrakningu og raðgreiningu er að gefa okkur mjög gagnlegar upplýsingar sem nýtast í áframhaldandi skipulagningu,“ sagði Þórólfur. „Við munum reyna að vinna þetta áfram vísindalega og á þekkingu og vitneskju sem mun gagnast okkur til framtíðar.“
Spurður um hversu lengi Íslendingar gætu þurft að búa við takmarkanir á ferðalögum svaraði Þórólfur: „Veiran á nægilegt fóður hér. Við þurfum að búa við einhvers konar takmarkanir í marga mánuði, mörg ár eða jafnvel lengur.“