Forseti Íslands má einungis sitja í tólf ár, tvö sex ára kjörtímabil, og sá sem ætlar að bjóða sig fram til forseta þarf að hafa til þess meðmæli frá 2,5 prósentum kjósenda, samkvæmt drögum að frumvarpi til stjórnarskrárbreytinga, sem lagt var fram í samráðsgátt stjórnvalda í gær.
Ekkert hámark er í dag á þeim tíma sem forseti má sitja í embætti, kjörtímabil eru fjögur ár og þeir sem vilja verða forseti Íslands þurfa einungis að safna 1.500 undirskriftum frá kjósendum til að framboð þeirra sé gilt.
Nokkur umræða fór fram í samfélaginu um síðastnefnda atriðið í aðdraganda forsetakosninganna um liðna helgi, enda hefur fjöldi meðmælenda staðið óbreyttur frá lýðveldisstofnun, en þá voru 1.500 kjósendur um 2 prósent þeirra sem voru á kjörskrá.
Frumvarpsdrögin lúta að breytingum á þeim atriðum stjórnarskrárinnar sem varða embætti forseta, ríkisstjórninni og verkefnum framkvæmdavalds, ásamt öðru. Þau voru samin af Skúla Magnússyni héraðsdómara og dósent í samráði við formenn allra flokka sem eiga sæti á Alþingi.
Ekki verði fjallað um landsdóm í stjórnarskrá
Í drögunum er lagt til að ákvæði um landsdóm verði fellt úr stjórnarskrá og að þingið fái heimild til þess að fela embætti ríkissaksóknara að fara með ákæruvald vegna ætlaðra embættisbrota ráðherra. Sömuleiðis er lagt til að almenn lög kveði á um ráðherraábyrgð, en í samráðsgátt stjórnvalda er tekið fram nú sé unnið að endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og laga um landsdóm. Reikna má með að frumvörp sem þau mál varða verði kynnt í samráðsgáttinni í haust.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að Alþingi taki afstöðu til þess með lagasetningu hvort ástæða sé til að viðhalda landsdómi sem sérdómstóli um ráðherraábyrgð eða hvort málum um ráðherraábyrgð verði falinn
Mælt sérstaklega fyrir um þingræði og það hvað þingið má gera ef forseti synjar lögum
Meginmarkmiðið með frumvarpsdrögunum er sagt vera að láta þennan kafla stjórnarskrárinnar endurspegla betur gildandi rétt. Í sumum tilfellum er einfaldlega um minniháttar orðalagsbreytingar að ræða, en í öðrum er stjórnarskráin sögð „þögul um mikilvægar gildandi efnisreglur“ og þá þarf að bæta við ákvæðum.
Eitt slíkt tilfelli varðar til dæmis þingræðisregluna, en lagt er til að hún verði bundin í stjórnarskrá og mælt sé fyrir um það að ríkisstjórn eða ráðherrar þurfi að segja af sér ef Alþingi lýsir yfir vantrausti á þá. Einnig er lagt til að að mælt verði fyrir um skyldu forseta Íslands til þess að leita eftir áliti forseta Alþingis og formanna þingflokka áður en tekin verði ákvörðun um þingrof að tillögu forsætisráðherra.
Að auki er lagt til að mælt verði sérstaklega fyrir um að Alþingi hafi heimilt til þess að fella úr gildi lög sem forseti synjar staðfestingar með því að nýta sér 26. grein stjórnarskrárinnar og þá með þeim afleiðingum að þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin fari ekki fram. Í greinargerð segir að deilt hafi verið um þetta frá því árið 2004, þegar Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti beitti ákvæðinu í fyrsta sinn og neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin svokölluðu.
Einnig er lagt til að mælt verði sérstaklega fyrir um embætti ríkissaksóknara í stjórnarskrá, til þess að tryggja embættinu sambærilegt sjálfstæði og vernd og dómsvaldinu í landinu.
Frestur til þess að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda rennur út 22. júlí.