Ellefu virk smit af kórónuveirunni eru nú í landinu að því er fram kemur á vefnum Covid.is Þeim hefur því fækkað um eitt á milli daga. 2.038 sýni voru tekin í gær, langflest eða 1.310 við landamærin. Fjögur reyndust jákvæð; þrjú úr skimun við landamæri og eitt hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Síðustu daga hefur fjölgað mikið í sóttkví vegna fimm nýrra innanlandssmita. Þau eru rakin til konu sem kom frá Bandaríkjunum þann 17. júní. Hún fékk neikvæða niðurstöðu úr landamæraskimun en nokkrum dögum seinna fór hún aftur í sýnatöku og reyndist það próf jákvætt.
Í gær voru því 434 komnir í sóttkví en þeir höfðu verið 415 daginn áður. Þetta eru þó mun lægri tölur en sáust í miðjum faraldri þegar nokkur þúsund manns voru í sóttkví á sama tíma. Þar sem um hópsmit er að ræða hefur rakningarteymið unnið hörðum höndum að því að finna alla þá sem þessir sýktu einstaklingar áttu samneyti við. Það er stór hópur, m.a. gestir úr nokkrum útskriftarveislum.
Rakningarteymið hefur rakið uppruna 25 smita sem greinst hafa hér frá 15. Júní til útlanda. Sex smit eru flokkuð sem innanlandssmit að því er fram kemur á Covid.is.
Tuttugu manns sem greinst hafa með kórónuveiruna við landamæraskimun hafa fengið þá niðurstöðu úr mótefnamælingu að vera ekki smitandi. Fjórir hafa hins vegar reynst smitandi og beðið er niðurstöðu úr þremur mótefnamælingum.
Enginn liggur á sjúkrahúsi á Íslandi vegna COVID-19. Frá því faraldurinn hófst í byrjun febrúar hafa 1.887 tilfelli greinst.