Stofnendur og fyrrum eigendur Mjólku hafa stefnt Mjólkursamsölunni vegna þess sem þeir langvarandi, ítrekaðra og alvarleg brota á samkeppnislögum af hálfu MS. Með stefnunni nú fara fyrrverandi eigendur Mjólku fram á MS viðurkenni skaðabótaskyldu sína gagnvart þeim.
Í stefnunni, sem send hefur verið á fjölmiðla, kemur fram að beint tjón af ólögmætri háttsemi MS sé metið á 58,9 milljónir króna, en að óbeint tjón sé mun meira og hafi haft það í för með sér að Mjólka stóð frammi fyrir greiðsluþroti í árslok árið 2009.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í marsmánuði að MS ætti að greiða alls 480 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum, fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og mismunað viðskiptaaðilum sínum þegar kom að því að selja hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum.
Samkeppniseftirlitið hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að MS hefði með þessu brotið mjög alvarlega gegn samkeppnislögum. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2016 sagði að háttsemi MS, sem seldi Kaupfélagi Skagfirðinga hrámjólk á lægra verði en öðrum á markaði, hefði verið til þess fallin að veita þeim verulegt samkeppnisforskot.
Upp komst um þessa háttsemi MS fyrir hálfgerða slysni. Árið 2012 fékk Ólafur M. Magnússon, sem áður stóð í stafni hjá Mjólku, sendan reikning frá MS sem var stílaður á Mjólku II þegar hann sjálfur var byrjaður með KÚ, sem einnig var að kaupa hrámjólk af MS.
Þá komst hann að því að MS var að selja KS hrámjólkina á nokkuð lægra verði en honum sjálfum. Í kjölfarið tilkynnti hann það til Samkeppniseftirlitsins, sem fór að skoða málið.
Brot MS hafa verið staðfest fyrir dómstólum og nú fara stofnendur Mjólku, sem áður segir, fram á að MS viðurkenni skaðabótaskyldu sína gagnvart þeim.