Vorið var óvenjulegt í Síberíu. Það var veturinn reyndar líka. Í bænum Verkhoyansk sýndu hitamælar 38 gráðu hita þann 20. júní. Þessu áttu margir bágt með að trúa - enda bærinn aðeins tíu kílómetra sunnan við heimskautsbaug og svæðið almennt með þeim köldustu í víðri veröld.
Tíðindin, sem þá voru óstaðfest rötuðu í heimsfréttirnar. Og nú hefur rússneska veðurstofan yfirfarið sín gögn og niðurstaðan er þessi: Hitinn fór vissulega upp í 38°C Verkhoyansk þann 20. júní. Þar með var slegið hitamet - en ekki aðeins í þessum tiltekna bæ. Aldrei fyrr hefur svo hátt hitastig mælst svo norðanlega á norðurslóðum.
Þegar hitamælar sýndu þessa tölu þennan tiltekna dag var ekki endilega efast um að þeir væru að sýna rétta niðurstöðu. Hins vegar er talan það há að yfirfara þurfti niðurstöðurnar að beiðni Alþjóðlegu veðurstofnunarinnar.
Fyrra hitamet var staðfest 25. júlí árið 1988. Hitamælingar hafa verið gerðar í Verkhoyansk allt frá árinu 1885. Samkvæmt þeim gögnum er meðalhiti í lok júní um 20°C.
Að vetri til mælist frostið á þessum slóðum oft milli 40-50 stig. Mest hefur frostið í Verkhoyansk mælst 67,8 stig. Það gerðist í febrúar árið 1892.
Likely the hottest temperature ever recorded in the Arctic happened today-100.4 F- What's happening in Siberia this year is nothing short of remarkable. The kind of weather we expect by 2100, 80 years early.
— Jeff Berardelli (@WeatherProf) June 20, 2020
For perspective Miami has only reached 100 degrees once on record. https://t.co/WDPRmLRD4d
Breytileikinn á milli þessara tveggja meta, 38 stiga hita annars vegar og 67,8 stiga frosts hins vegar, er hvorki meira né minna en 105,8 gráður og að því er fram kemur í samantekt veðurfréttastofunnar Weather.com þá er þetta líklega mesti munur sem um getur í mæligögnum sem liggja fyrir í heiminum.
Júní var einstaklega heitur í Síberíu. Aðeins nokkrum dögum eftir að metið féll í Verkhoyansk mældist 34,3 stiga hiti í bænum Ust'-Olenek sem er um 640 kílómetrum norðan við heimskautsbaug. Talið er að þetta sé hæsti hiti sem mælst hefur svo norðanlega frá upphafi mælinga. Meðalhitinn þar er yfirleitt í kringum 10-12 gráður á þessum árstíma.
🌡️🔥 T°max de 38.0°C à #Verkhoyansk, #Sibérie orientale (67.55°N), ce 20 juin.
— Etienne Kapikian (@EKMeteo) June 20, 2020
Si cette valeur est correcte, ce serait non seulement un record absolu à la station (37.3°C, 25/07/1988) mais aussi la température la plus élevée jamais observée au nord du cercle polaire #arctique ! pic.twitter.com/EUE8JVdkGR
Skýringuna á hitabylgjunni má rekja til háþrýstisvæðis í háloftunum sem kom sér fyrir yfir Síberíu um miðjan júní. Þessi þaulsætna hæð hefur komið í veg fyrir að kaldara loft frá norðurströnd Rússlands fari suður á bóginn.
En það er ekki bara sumarið sem hefur verið óvenjulega hlýtt. Hitinn í Rússlandi í vetur mældist yfir meðaltali síðustu ára og reyndar er það svo að tímabilið frá janúar til maí í ár er það heitasta frá upphafi, 1,9°C yfir sama tímabili frá árinu 2016 sem var þar til nú það heitasta.
В Верхоянске с 18 по 28 июня 2020 г. максимальная температура превышала 30°, и находилась в интервале от 31,4° до 35,2° с пиком 20 июня до 38,0°. Июнь-2020 в Верхоянске со средней температурой 19,2° стал самым теплым в истории.#жаравАрктике #Якутияhttps://t.co/qYebrTXIVd pic.twitter.com/p8Etzramru
— Гидрометцентр России (@meteoinfo_ru) June 30, 2020
Sérfræðingar við jarðvísindastofnun Berkley-háskóla segja að hvergi annars staðar í heiminum í ár hafi veðrið verið óvenjulegra en í Rússlandi.
Þetta hefur orðið til þess að skógareldar hafa geisað í landinu frá því um miðjan apríl og þar sem loftið í sumar hefur verið þurrt halda þeir áfram að brenna.
Sérfræðingar í loftslagsmálum hafa bent á að spár um hlýnun vegna loftslagsbreytinga hafi gert ráð fyrir hækkandi hita á þessum slóðum en að það sem veki ugg sé að breytingarnar virðist vera að sýna sig áratugum fyrr en spár gerðu ráð fyrir. Meðal þeirra sem hefur tjáð sig um málið er veðurfræðingurinn Jeff Berardelli, sem hefur verið álitsgjafi í fjölmiðlum um loftslagsbreytingar um hríð.
Gavin Schmidt, sérfræðingur í loftslagsfræðum hjá NASA, segir að svo virðist sem að norðurslóðir séu að hlýna þrisvar sinnum hraðar en aðrir staðir á jörðinni.
Í nýrri rannsókn á fornloftslagi, sem birt var í vísindatímaritinu Nature, er niðurstaðan sú að hitastig jarðar í dag sé heitara en það hefur verið í að minnsta kosti 12 þúsund ár.