Tekin voru 1.778 sýni við landamæraskimun í gær og greindust tvö þeirra jákvæð. Beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu og eru viðkomandi í einangrun á meðan. Jafnframt greindust þrjú smit innanlands í gær og eru viðkomandi einnig í einangrun. Alls eru nú 13 manns með virk smit á Íslandi og eru þau öll í einangrun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í dag.
Í henni segir að ánægjulegt sé „að segja frá því að þau sem hafa greinst undanfarna daga með COVID-19, eftir komu til landsins, hafa öll farið eftir ráðleggingum sóttvarnayfirvalda eftir sýnatöku við landamærin og takmarkað samneyti við annað fólk. Það eykur öryggi almennings og auðveldar mjög alla vinnu við rakningu.“
Þá er brýnt fyrir fólki sem kemur að utan að hafa hægt um sig fyrstu daga eftir heimkomu og hafa samband við heilsugæslu ef það finnur fyrir einkennum.
„Við minnum á mikilvægi þess að sýna hvert öðru tillitsemi. Munum að þvo hendur reglulega og nota handspritt þar sem ekki er aðstaða til handþvotta. Virðum tveggja metra regluna eins og hægt er.
Að setja öryggið í öndvegi er okkur öllum í hag,“ segir í tilkynningunni.
Næstu upplýsingafundir almannavarna verða haldnir þriðjudaginn 7. júlí og fimmtudaginn 9. júlí.