„Áhorfið á Tucker Carlson er í hæstu hæðum og einnig sögusagnir um að þessi vinsæli þáttastjórnandi Fox News muni leggja sjónvarpsferilinn til hliðar og bjóða sig fram til forseta árið 2024,“ sagði í fréttaskýringu á bandaríska vefmiðlinum Politico í gær.
Blaðamaður miðilsins ræddi við sextán þekkta repúblikana og íhaldssama álitsgjafa sem allir telja að Carlson ætti töluverðar sigurlíkur ef hann myndi gefa kost á sér sem forsetaefni Repúblikanaflokksins árið 2024. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem nafn hans er nefnt í þessu samhengi.
Carlson, sem er 51 árs gamall, er nefnilega gríðarlega vinsæll hjá stórum hópum Bandaríkjamanna. Þáttur hans, Tucker Carlson Tonight, er vinsælasti þátturinn í bandarísku kapalsjónvarpi samkvæmt nýjum mælingum og á YouTube-síðu Fox News fær nánast hvert einasta myndskeið úr þættinum milljónir áhorfa.
Þátturinn er raunar ekki bara sá vinsælasti um þessar mundir, heldur er hann núna orðinn sá þáttur sem hefur haldið flestum áhorfendum við skjáinn að meðaltali yfir þriggja mánaða tímabil frá upphafi. Rúmar 4,33 milljónir Bandaríkjamanna horfðu að meðaltali á þáttinn frá byrjun apríl og til loka júní.
Flestir sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum og menningu hafa eflaust séð einhverjar af einræðum Carlson, þar sem hann leggur áhorfendum línurnar og segir skoðun sína umbúðalaust á stöðu landsins og heimsins, ræðst gegn demókrötum, „frjálslyndu elítunni“ og flestum helstu fjölmiðlum Bandaríkjanna.
Hann boðar í raun það sem á síðari árum hefur verið kallaður „Trumpismi“ af ýmsum álitsgjöfum og hefur verið dáður af mörgum þekktum hvítum þjóðernissinnum fyrir vikið. Hann segir stundum hluti, sem ekki einu sinni óheflaður forsetinn lætur hvarfla að sér að segja.
Í síðasta mánuði hættu stórfyrirtæki á borð við Disney og T-Mobile að kaupa auglýsingar af Fox News í kringum þáttinn eftir að Carlson lét umdeild ummæli falla um Black Lives Matter-hreyfinguna. Auglýsendur létu sig einnig hverfa árið 2018 þegar hann sagði að innflytjendur gerðu „landið okkar fátækara og skítugara og klofnara.“
En slíkur boðskapur heillar fullt af fólki í Bandaríkjum dagsins í dag. „Orðum þetta svona,“ segir Sam Nunberg, fyrrverandi pólitískur ráðgjafi Donalds Trump, „ef Biden vinnur og Tucker ákveður að bjóða sig fram [fyrir Repúblikanaflokkinn árið 2024, þá fengi hann tilnefninguna.“
Nunberg þekkir reyndar Carlson persónulega og telur að hann myndi ekki bjóða sig fram, þar sem þáttastjórnandinn hafi óbeit á stjórnmálamönnum. Carlson hefur aldrei tekið þátt í stjórnmálum og hefur áður lýst því yfir að hann hafi það ekki í hyggju.
Óttast að hófsamara fólk taki flokkinn yfir
En að undanförnu hefur hann líka sagt að áhorfendur hans og kjósendur repúblikana, ættu að vara sig á því að þegar Donald Trump hverfi á braut, ýmist vegna taps í kosningum haustsins eða eftir næsta kjörtímabil, muni hófsamari „hrægammar“ reyna að taka flokkinn yfir. Hefur hann sérstaklega rætt um Nikki Haley í því samhengi, en hún er talin líkleg til þess að fara í framboð 2024.
„Um leið og Trump fer, þá munu þau ráðast á hann,“ sagði Carlson í vikunni. „Þau munu segja ykkur að repúblikanar hafi tapað völdum einungis þar sem þeir voru illgjarnir og óumbyrðarlyndir eins og Donald Trump. Það er lygi.“
Undanfarið hefur Carlson farið nokkrum hamförum í gagnrýni sinni á repúblikana sem hafa tekið undir málstað Black Lives Matters hreyfingarinnar.
Í vikunni hjólaði hann í tvo öldungardeildarþingmenn flokksins sem lögðu til að 19. júní, Juneteenth, yrði gerður að almennum frídegi í stað dags Kristófers Kólumbusar. Á Juneteenth er þess minnst að þann dag árið 1865 voru síðustu svörtu þrælarnir í Texas leystir undan ánauð.
Hann hefur einnig skotið fast að Jared Kushner, tengdasyni og ráðgjafa Trumps, sagt að hann fyrirlíti kjósendur forsetans og kennir honum um að hafa komið í veg fyrir að forsetinn beitti sér af fullri hörku í innflytjendamálum, löggæslumálum og utanríkismálum.
Áhrifamáttur
Í umfjöllun Politico um þessar ógnarvinsældir hins umdeilda Carlson í baklandi repúblikanafloksins er klikkt út með því að vitna til orða ráðgjafa repúblikana sem er í nánu sambandi við Hvíta húsið:
„Ef þú ert repúblikani í stjórnmálum og vilt vita hvar kjósendur Repúblikanaflokksins standa, þá er það eina sem þú þarft að gera að horfa á Tucker Carlson á hverju kvöldi.“