„Það sem við höfum náttúrulega miklar áhyggjur af er hversu mikið af ferðaþjónustunni er bara undir borðinu. Þetta eru sjálfboðaliðar og það eru nemar að koma sem við höldum að séu á einhverjum mjög fölskum forsendum. Við erum að rekast á fólk sem kemur til okkar með pappíra um að þeir séu starfsþjálfunarnemar og séu þar af leiðandi ekki á launum og við teljum að það sé í raun og veru bara ódýrt vinnuafl. Þeir eru á stöðum sem hafa í raun ekki neina fagmennsku til að taka nema. Þetta þarf að laga.“
Þetta kemur fram hjá einum viðmælanda í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Höfundar skýrslunnar tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og einnig við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið.
Á Vesturlandi var mikið rætt um fjölgun „starfsþjálfunarnema“ í ferðaþjónustu, á stöðum sem hefðu ekki menntað fagfólk til að leiðbeina þeim. Tekið var dæmi um hótel á svæðinu sem var búið „að rúlla 13 þjónum í gegn“ án þess að vera með lærðan þjón á staðnum. Að þeirra mati var þetta enn ein leið til að ná í „ódýrt vinnuafl“.
Vaxandi ógn
Barátta gegn því að fólk komi hingað í stórum stíl til að starfa launalaust eða með laun langt undir lágmarkslaunum, var ofarlega í huga margra viðmælendanna. Litið var á þessa þróun sem vaxandi ógn, sem hefði aukist í takt við vöxt ferðaþjónustu um land allt og auknar vinsældir landsins meðal ferðamanna. Birtingarmynd þessarar þróunar eru sjálfboðaliðar, sem mest voru tengdir við hestaleigur og minni gististaði, og starfsnemar á hótelum. Einnig var minnst á söfn og rætt um tilraunir sveitarfélaga til að taka upp þetta fyrirkomulag, að því er fram kemur í skýrslunni.
Áhyggjurnar beindust að því að verið væri að grafa undan leikreglum á íslenskum vinnumarkaði og eðlilegri samkeppni milli fyrirtækja, en ekki síður að viðkvæmri stöðu fólks sem væri að vinna án trygginga og annarra réttinda. Einnig væru dæmi um að fólk væri látið vinna mjög mikið án launa. Ef fólk er án trygginga getur það verið í vondum málum ef það lendi í vinnuslysum:
„Mesta ógnin sem mér finnst hafa verið núna undanfarið, það er sjálfboðaliðastörfin. Það er verið að auglýsa þetta á allskonar síðum. Það þýðir að fólk er hérna jafnvel án trygginga og það eru dæmi um vinnuslys.“
Annar viðmælandi taldi að fólk væri oft sett í mun meiri vinnu en talað hefði verið um í auglýsingu eftir sjálfboðaliða.
„Ég held það sé líka í þessu sjálfboðaliðaumhverfi að fólk kemur og gerir ráð fyrir að vinna nokkrar klukkustundir á viku en svo vinnur það bara tugi klukkustunda, bara eins og það sé þrælar.“
Margir þó sáttir
Í skýrslunni segir að það virðist þó vera að margir sem eru að vinna sem sjálfboðaliðar séu sáttir með að fá að dvelja frítt á Íslandi og fáir sjálfboðaliðar og nemar kvarta til stéttarfélaganna. Frekar að þeir bregðist illa við afskiptum þeirra. Sjálfboðaliðarnir líti á þetta sem tækifæri til að dvelja ódýrt í nálægð við dýr og náttúru og slá þessu saman við ferðalag um landið. Það sé helst ef að vinnan verður of mikil eða öðruvísi en um var samið, sem fólk yfirgefur gestgjafa eða vinnuveitanda.
Dæmi var tekið um konu á fimmtugsaldri sem sætti sig ekki við vera „í ferðaþjónustu að búa um rúm“ eftir að hafa ráðið sig til að hugsa um dýr á sveitabæ. Hún lét ekki bjóða sér það og fór, en „henni var alveg sama þó hún fengi bara 50 þúsund krónur á mánuði“ fyrir að hugsa um dýrin.
Sumir kjósa að horfa í hina áttina
Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir því að fá samninga og álit sem styðja við sjónarmið hennar um að það séu engin óljós mörk á milli ferðamanna, námsmanna og starfsmanna. Ein setning skýri þetta: „Það er ólöglegt að nota sjálfboðaliða í efnahagslegri starfsemi.“
„Við höfum fengið staðfest álit ríkisskattstjóra um hvað sé launalaus vinna og hvað ekki. Við höfum sameiginlegt álit við Samtök atvinnulífsins um hvað sé eðlilegt í þessu og hvað ekki. Við höfum líka sameiginlegt álit með Bændasamtökunum um hvað sé eðlilegt og hvað ekki. Svona heilt yfir þá skilja þetta allir. Það vita það allir að vinna á Íslandi er almennt launuð, en einstakir atvinnurekendur þeir kjósa að horfa svolítið fram hjá þessu.“
Fram kom í viðtölunum að kjarasamningar hérlendis næðu til flest allra starfa á Íslandi. Stéttarfélögin settu sig hins vegar ekki upp á móti sjálfboðaliðum t.d. stígagerð í þjóðgörðum og kökusölu kvenfélaga.
Vantraust til stéttarfélaga
Fram kemur hjá skýrsluhöfunum að rauður þráður í viðtölum við starfsfólk stéttarfélaga hafi verið að erlent starfsfólk í ferðaþjónustu væri hrætt við að sækja kröfur um leiðréttingu á launum á meðan það væri í vinnu á viðkomandi stað.
Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni „þora þau ekki“ eða eru „hrædd við“ að fá aðstoð hjá stéttarfélögunum, vegna ótta um að missa starfið eða vegna vantrausts á stéttarfélögum. Byggir það vantraust oftast á orðspori stéttarfélaga í heimalöndum þeirra. Var ýmist talað um þau sem „mafíu samtök“ eða að vinnuveitendur hefðu stéttarfélög „í vasanum“. Oft er vantraust hjá fólki sem kemur frá Austur-Evrópu, en fjallað verður nánar um mun eftir upprunalöndum í næsta undirkafla.
„Það er vantraust til okkar. Margt, af þessu fólki sem kemur frá Austur Evrópu, það er eiginlega sannfært um að við séum bara hluti af mafíunni heima og telur að við getum ekki lagað neitt.“
Flestir sem eru að koma til stéttarfélaganna er fólk „sem er að hætta, fara heim til sín eða skipta um vinnu“. Þá fyrst er fólk e.t.v. að kanna hvort að það hafi fengið borgað samkvæmt kjarasamningum og áunnin réttindi hafi verið gerð upp við þau. Stundum er verið að biðja stéttarfélögin að reikna nokkur ár aftur í tímann, en oft þarf að hafna gömlum málum vegna skorts á gögnum „[…] þau eru jafnvel að fara tvö þrjú ár aftur í tímann og senda fjölpóst á gamla vinnufélaga og við eigum að fara að reikna út eldgömul mál. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að reyna að sporna við“ (Suðurland-1). Þó að fólk hafi verið sátt á vinnustað, þá sé það búið að átta sig á að það getur fengið meiri laun, en er ekki tilbúið að fara fram á það við atvinnurekandann á meðan það er í vinnu. Stéttarfélögin þurfa að leggja kröfur fram í nafni ákveðinna einstaklinga og mörgum finnst það erfitt. Þar sem fólk er gjarnan að hafa samband rétt áður en það fer úr landi nær það jafnvel ekki að ganga frá þessu umboði fyrir brottför: „… af því að fólk er svo hrætt og það er líka hrætt við okkur. Það vill helst vera komið úr landi.“
Ekki ástæðulaus ótti
Óttinn við að missa starf ef kvartað er eða settar fram formlegar kröfur var ekki talinn ástæðulaus, því að það væri auðvelt að reka fólk úr starfi á Íslandi: