Icelandair flutti rúmlega 18 þúsund farþega í júní, en félagið byrjaði að auka áætlunarflug sitt á ný 15. júní. Um er að ræða um það bil 97 prósent samdrátt á milli ára, en í júní í fyrra flugu um 553 þúsund farþegar með Icelandair. Flugframboð Icelandair var að sama skapi um 96 prósent minna en það var í fyrra.
Þrátt fyrir að verulegt skarð hafi verið hoggið í farþegaflutninga hjá félaginu undanfarnar vikur og mánuði hafa fraktflutningar Icelandair dregist mun minna saman.
Í júní nam samdrátturinn í fraktflutningum einungis um það bil 9 prósentum, samkvæmt tilkynningu Icelandair Group til Kauphallar í dag, en samdrætti í farþegaflugi hefur verið mætt með auknum ferðum fraktvéla félagsins bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.
Innanlandsflugið hefur sömuleiðis átt undir högg að sækja vegna faraldursins, en um 12 þúsund farþegar fóru í loftið með Air Iceland Connect í júnímánuði. Fækkaði þeim um 52 prósent á milli ára, en framboðið á innanlandsflugi hjá félaginu minnkaði um 63 prósent.
Fóru yfir 20 fraktflug með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína
Haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair Group í fréttatilkynningu að félagið hafi farið hægt af stað eftir langt tímabil yfirgripsmikilla ferðatakmarkana, en að fjöldi farþega hafi þó aukist nokkuð á milli mánaða.
Annað var kannski erfitt, þar sem í maí flutti Icelandair einungis um það bil 3.000 farþega.
Bogi leggur áherslu á að flutningastarfsemin hafi gengið vel og segir að farið hafi verið tvær ferðar með íslenskar sjávarafurðir til Bandaríkjanna og Evrópu flesta daga vikunnar.
„Þá héldum við áfram í sérverkefnum í frakt- og leiguflugi og má þar til dæmis nefna yfir 20 fraktflug með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Evrópu og Bandaríkjanna fyrir aðila í heilbrigðisþjónustu. Við útvíkkuðum flugáætlun okkar í byrjun júlí og þrátt fyrir töluverða óvissu erum við tilbúin að bregðast hratt við um leið og ástandið batnar og eftirspurn tekur við sér,“ segir Bogi Nils.