Norðurlöndin ættu að koma sér saman um sameiginlega stefnu í loftslagsmálum og beita sér fyrir henni á alþjóðavettvangi, þar sem það hefur oft og tíðum sýnt sig að sameiginlegt norrænt átak innan alþjóðastofnana getur hjálpað til við að setja mál á dagskrá.
Einnig ættu Norðurlöndin að vinna sameiginlega að stefnu og nálgun varðandi norðurslóðastefnu Kína, þar sem aukinn áhugi Kínverja á norðurslóðum mun hafa áskoranir í för með sér fyrir öryggismál í heimshlutanum.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um öryggis- og utanríkismál Norðurlandanna sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur skilað af sér til norrænu utanríkisráðherranna.
Björn var fenginn til þess að skrifa skýrsluna í desember í fyrra, en þá var áratugur frá því að Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs var fenginn til að vinna sambærilega skýrslu.
Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að stórum hluta þeirra tillagna sem settar voru fram í Stoltenberg-skýrslunni hafi verið hrint í framkvæmd. Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að hann vonist til þess að tillögur Björns komist í framkvæmd á næstu mánuðum og árum.
Samstarf um viðbrögð við framtíðarfaröldrum
Birni var falið að að beina athygli sinni að loftslagsbreytingum, fjölþáttaógnum og netöryggi auk leiða til að efla fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðareglum við skýrslugerðina. Lagði hann fram 14 tillögur í heildina, sem settar eru fram með knöppum hætti líkt og utanríkisráðherrar Norðurlandanna óskuðu eftir.
Á meðal tillagna, auk þeirra sem nefndar eru hér í inngangi, er að hið opinbera og einkaaðilar vinni saman á sviði orkuskipta, Norðurlöndin vinni saman að hafrannsóknum til þess að sporn gegn áhrifum loftslagsbreytinga og hafi einnig samstarf um viðbrögð við heimsfaröldrum framtíðar.
Hvað það síðastnefnda varðar leggur Björn til að rannsaka skuli hvernig Norðurlöndin gætu komið sér upp öryggisbirgðakerfi fyrir heilbrigðisgeirann og möguleikann á því að koma upp samnorrænum birgðum fyrir lyf og nauðsynlegar heilbrigðisvörur og -tæki.
Í inngangi skýrslunnar kemur fram að við gerð hennar hafi Björn og Jóna Sólveig Elínardóttir, sem stýrir deild um alþjóðleg öryggis- og varnarmálasamstarf í ráðuneytinu, átt yfir 80 fundi með norrænum stjórnmálamönnum, diplómötum, sérfræðingum og fræðimönnum þar sem þau hafi fundið fyrir miklum og einlægum áhuga á að styrkja norrænt samstarf innan þess málaflokks sem skýrslan tekur til.
„Ef skýrslan verður til þess að auka norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála er hún skref til bjartari framtíðar,“ segir Björn í inngangi skýrslunnar.