Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur greinst með kórónuveiruna, en hann fór í sýnatöku í gærkvöldi eftir að hafa fundið fyrir slappleika, þreytu og hita frá því á sunnudag. Forsetinn hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarnar vikur og mánuði fyrir viðbrögð sín við heimsfaraldrinum, en yfir 65.000 Brasilíumenn hafa látist eftir að hafa smitast af COVID-19 til þessa og 1,6 milljónir manna smitast.
Forsetinn sagði blaðamönnum sjálfur frá því í dag að sýnið hefði reynst jákvætt, en hann lagði áherslu á að honum liði vel. Samkvæmt frétt New York Times ræddi forsetinn við blaðamenn úr nokkurra metra fjarlægð fyrir utan forsetahöllina um hádegisbil í dag. Hann sagði að honum líði vel sökum þess að hann hefur verið að taka malaríulyfið hydroxycloroquine, sem rannsóknir hafa reyndar sýnt fram á að gerir lítið í baráttunni við veiruna.
Forsetinn sagði að það væri engin ástæða til að óttast. Svona væri bara lífið og lífið myndi halda áfram. Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr alvarleika faraldursins og kallað kórónuveiruna lítið annað en aumt kvef, sem hann sjálfur myndi standa af sér af því að hann væri hraustur.
Viðbrögðin í Brasilíu hafa tekið nokkuð mið af því, en Bolsonaro hefur verið í hörðum slag gegn bæði fylkisstjórum og borgarstjórum sem hafa gengið lengra í samkomutakmörkunum en hann sjálfur hefur viljað. Brasilía hefur auk þess haft þrjá heilbrigðisráðherra síðan að faraldurinn kom upp, Bolsonaro sparkaði einum í apríl og annar hætti í maí eftir einungis mánuð í starfi.
Forsetinn hefur sagt að efnahagur landsins þoli ekki að staðna og hefur líkt veirunni við rigningu sem ómögulegt sé að sleppa undan. Í gær slakaði hann á lögum sem skylda Brasilíumenn til þess að bera grímur á almannafæri, en hann sjálfur hefur ofsinnis sleppt því að bera grímu er hann sést opinberlega, jafnvel þrátt fyrir að það sé skylda á þeim stöðum sem hann heimsækir.