Afgreiðslutími þinglýsinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu er um þrjár vikur þessa dagana. Á vef embættisins má skoða stöðu þinglýsinga en hún var síðast uppfærð í gær.
„28. júlí n.k. verður reynt að hafa almenn skjöl sem koma inn til þinglýsingar í dag tilbúin. Viðskiptavinir eru þó hvattir til að kynna sér stöðuna á heimasíðunni áður en þeir vitja skjalanna,“ segir á vef embættisins. Þá kemur fram á síðunni að skjöl sem móttekin voru til og með 22. júní hafi verið yfirfarinn og því hefur þinglýsing skjala sem komu inn 22. júní tekið 15 daga.
Mikil ásókn hefur verið í endurfjármögnun húsnæðislána á síðustu mánuðum. Heimili landsins eru í auknum mæli að færa sig úr verðtryggðum húsnæðislánum í óverðtryggð í kjölfar snarpra vaxtalækkana. Bankarnir bjóða nú upp á hagstæðari óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum heldur en lífeyrissjóðirnir, ef frá er talinn lífeyrissjóðurinn Birta. Af þeim sökum hefur hlutdeild banka á húsnæðislánamarkaði aukist að undanförnu og í nýlegri samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja er gert ráð fyrir að sú hlutdeildaraukning haldi áfram á komandi misserum.
Vegna mikillar ásóknar hefur afgreiðslutími lána hjá bönkunum einnig lengst. Kjarninn sendi fyrirspurn á stóru viðskiptabankana þrjá; Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann í síðustu viku um afgreiðslutíma nýrra húsnæðislána og afgreiðslutíma endurfjármagnaðra húsnæðislána.
Frá Arion banka fengust þau svör að vel gengi að afgreiða lán þrátt fyrir mikla aukningu. Afgreiðslutími lána að lokinni þinglýsingu sé að jafnaði fjórir til fimm virkir dagar, sem skilar sér samtals í um viku bið ef helgar eru teknar með í reikninginn. Í svarinu kemur einnig fram að í einstökum tilvikum hafi afgreiðslutíminn dregist fram yfir sex virka daga.
Í svari frá Íslandsbanka segir: „Við fasteignakaup er tíminn sem fer í lánin 2 dagar en afgreiðslutími endurfjármögnunar er nú um tvær vikur. Vegna mjög mikils álags og fjölda umsókna þessi dægrin eru lán vegna fasteignakaupa sett í forgang þar sem kaupanda ber að greiða seljanda innan tiltekins tíma.“ Þá segir í svari frá bankanum að staðan sé til komin vegna tímabundins álags.
Hjá Landsbankanum tekur afgreiðsla á lánum vegna fasteignakaupa um sjö til tíu daga alls en afgreiðsla vegna endurfjármögnunar að jafnaði um tvær til þrjár vikur alls. Í svarinu er tekið fram að um sé að ræða heildarfjölda daga frá því að greiðslumati lýkur til afgreiðslu láns. Þar inni sé ekki tíminn sem tekur að þinglýsa lánum. Af þessum heildarfjölda fara fjórir til sex virkir dagar í að afgreiða lán eftir þinglýsingu.
„Til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir íbúðalánum Landsbankans hefur vinnulagi verið breytt þannig að starfsfólk í útibúum víða um land sér um afgreiðslu fasteignalána óháð því hvar lántakendur eru staddir á landinu. Auk þess hefur bankinn ráðið fleira sumarstarfsfólk en áður til að sinna bakvinnslu,“ segir enn fremur í svari frá bankanum.