Ekki eru gerðar tillögur að breytingum á kvótaþaki eða kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum í nýrri skýrslu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Verkefnastjórnin hefur afhent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lokaskýrslu sína.
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, átti sæti í verkefnastjórninni en hún segir í samtali við Kjarnann að hinir stjórnarmeðlimirnir hafi litið svo á að það væri ekki þeirra hlutverk að gera tillögur um breytingar á þessum tveimur fyrrnefndum atriðum. Hún setur ákveðinn fyrirvara við skýrsluna sem birtist jafnframt þar.
Svört stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar hratt málinu af stað
Málið á sér heilmikinn aðdraganda. Í janúar árið 2019 hófst ferli en þá skilaði Ríkisendurskoðun svartri stjórnsýsluúttekt um Fiskistofu. Eitt þeirra atriða sem verulegar athugasemdir voru gerðar við, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög.
Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en 12 prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar.
Skiptar skoðanir hafa verið uppi um hvort það takmark hafi náðst. En skýrsla Ríkisendurskoðunar ýtti málum aðeins áfram. Í henni var meðal annars lagt til að ráðast í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem snúa að yfirráðum yfir aflaheimildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Vendingar í kjölfar Samherjamálsins
Kristján Þór skipaði verkefnastjórnina í mars 2019 til þess að fjalla um þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar en í henni sátu Sigurður Þórðarson, sem var formaður, Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs- og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Elliði Vignisson, sveitarstjóri Í Ölfusi og fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, Hulda Árnadóttir, lögmaður og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Í nóvember 2019, í kjölfar Samherjamálsins, óskaði ráðherrann eftir því að verkefnastjórnin myndi skila þeim hluta vinnu sinnar sem snéri að tengdum aðilum fyrir 1. janúar 2020. Henni var skilað skriflega þann 30. desember 2019.
Kjarninn fjallaði um tillögurnar þegar þær voru birtar í janúar en þær voru fimm. Lagðar voru til breytingar á skilgreiningum á tengdum aðilum þannig að þær yrðu látnar ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra. Þá var lagt til að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja myndu leiða til þess að fyrirtækin yrðu talin tengd nema sýnt væri fram á hið gagnstæða og að sérstaklega yrði skilgreint í lögunum hvað fælist í raunverulegum yfirráðum yfir öðru fyrirtæki. Einnig átti að skikka aðila sem ráða yfir meira en sex prósent af aflahlutdeild, sem eru örfá fyrirtæki, eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild til að tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna. Sama myndi eiga við þegar fram færu kaup í félagi sem ræður yfir aflahlutdeild eða við kaup á aflahlutdeild og áttu þau kaup ekki að koma til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu lægi fyrir. Að endingu átti að veita Fiskistofu auknar heimildir til afla gagna.
Í tillögunum var hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál yrðu áfram til skoðunar hjá nefndinni.
50 prósent viðmiðið „mjög hátt“
Lokaskýrslan var síðan birt á vef Stjórnarráðsins í dag og afhent ráðherra. Í skýrslunni segir að núgildandi reglur um hámarkshlutdeild hafi einkum sætt gagnrýni fyrir að vera óskýrar þar sem erfitt hafi reynst að sýna fram á hvenær tveir aðilar skuli teljast tengdir við framkvæmd þeirra. Gerð sé krafa um meirihlutaeign eða raunveruleg yfirráð. Í því felist að aðili þurfi að eiga meira en 50 prósent í öðrum aðila eða ráða yfir honum með öðrum hætti til að þeir séu taldir tengdir aðilar.
„Það viðmið er mjög hátt og benda má á að í þeirri þróun sem hefur átt sér stað varðandi það hvenær aðilar teljast tengdir og hvað felst í raunverulegum yfirráðum á fjármálamarkaði hefur þetta viðmið verið að lækka vegna þeirrar aðstöðu sem aðilar eru í ef þeir hafa veruleg áhrif í félögum,“ segir í skýrslunni.
Í þessu sambandi er bent á lög um skráningu raunverulegra eigenda og frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, samsköttunar félaga, takmörkunar á frádrætti vaxtagjalda og skattlagningar útsendra starfsmanna. Í báðum tilvikum sé miðað við 25 prósent beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar teljist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi.
Í skýrslunni eru lagðar fram sömu tillögur að breytingum og kynntar voru í janúar og útlistaðar hér að ofan – en ekki hefur verið bætt við þær.
Setti sérstakan fyrirvara
Eins og áður segir setti Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar sérstakan fyrirvara við skýrsluna, sem birtist í henni. Hún segir þar að auðlindir í náttúru Íslands hafi mikla sameiginlega þýðingu fyrir þjóðina. Gæta þurfi að almannahag og jafnræði við nýtingu þeirra gæða sem Ísland hefur yfir að ráða.
„Það gengur gegn almannahagsmunum að fáum aðilum sé gert kleift að fara með stærsta hluta fiskveiðiauðlindarinnar. Til að verja þá hagsmuni var 13. og 14. grein laga um stjórn fiskveiða samþykkt á Alþingi fyrir um 20 árum. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað síðan þá og er rétt að miða við nýjar lagasetningar líkt og lög um fjármálafyrirtæki og um skráningu raunverulegra eigenda þegar leitað er eftir viðmiðum til úrbóta.
Hún bendir á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem var meðal annars, tilefni að skipan verkefnastjórnarinnar, segi að endurskoða þurfi tiltekin ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða svo þau þjóni tilgangi sínum. Tryggja verði að ákvæði um hvenær tveir eða fleiri aðilar skuli teljast tengdir við framkvæmd þeirra séu skýr.
„Ekki andi laganna“
Oddný telur að bæta þurfi við 13. og 14. grein laganna eftirfarandi ákvæðum til þess að koma til móts við ábendingu Ríkisendurskoðunar.
Í fyrsta tölulið í 13. grein um tengda aðila segir: „Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meirihluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.“
Þetta ákvæði, ásamt greininni í heild og 14. grein, má túlka, að mati Oddnýjar, sem svo að einn aðili geti farið með allt að 12 prósent af heildarverðmæti aflahlutdeildar fiskiskipa og því til viðbótar átt rétt undir helming í öllum öðrum fiskiskipum sem fara með hin 88 prosentin. Þetta þýði að sami aðilinn geti farið með meirihluta af heildarverðmæti aflahlutdeildar sem er til skiptanna ár hvert. Þetta sé ekki andi laganna og standi þetta ákvæði óhaggað, þjóni 13. og 14. grein laganna ekki tilgangi sínum.
Vill hafa sama viðmið og í lögum um skráningu raunverulegra eigenda
Oddný leggur til að þessu hlutfalli verði breytt og í stað meirihluta í fyrsta tölulið 13. greinar laga um stjórn fiskveiða um tengda aðila, komi 25 prósent líkt og viðmiðið er í lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Þar sé miðað við að þeir sem eiga 25 prósent í fyrirtæki séu taldir með þeim sem í raun eiga starfsemina eða stýra þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingi, í hvers nafni viðskipti eða starfsemi er stunduð eða framkvæmd. Upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja séu aðgengilegar almenningi.
Þingmaðurinn segir að auk þess að vinna gegn samþjöppun muni þessi breyting auðvelda til muna eftirlit Fiskistofu með tengdum aðilum og mat á því hvort 12 prósent hámarkinu sé náð. Þá bendir hún á að jafnvel þó að meirihluta viðmiðið sé almennt viðmið, þá sé hér um að ræða sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar sem sérstöku máli gegnir um.