Mynd: Bára Huld Beck Kristján Þór Júlíusson á blaðamannafundi vegna veiðigjalda

Enn beðið eftir tillögum um breytingar á kvótaþaki

Skilgreining á tengdum aðilum í sjávarútvegi eru í engu samræmi við slíkar skilgreiningar í fjármálageiranum, sem skerpt var verulega á í kjölfar bankahrunsins. Þær tillögur sem kynntar voru fyrir helgi, um breytta skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi, eru ekki þær tillögur sem búist var að yrði flýtt vinnu við í kjölfar Samherjamálsins.

Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni tók það sérstaklega fram í bréfi sem hún sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þann 30. desember síðastliðinn að hún sé enn ekki búin að taka afstöðu til mögulega breytinga á kvótaþaki né kröfu um að hlutfall eignar í sjávarútvegsfyrirtækjum til að þau teljist tengd verði lækkað. „Verkefnastjórnin áformar að taka þessi atriði til skoðunar og fjalla um í lokaskýrslu sinni.“ Kjarninn fékk bréfið afhent hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Lokaskýrslan á að liggja fyrir í mars. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru deilur innan verkefnastjórnarinnar um hvort lækka eigi kvótaþakið úr tólf prósentum í lægri prósentu og lítið hefur verið rætt á vettvangi hans um hvert hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum, sem í dag er 50 prósent, ætti að vera. 

Tillögurnar sem kynntar voru í lok síðustu viku eru því ekki þær tillögur sem margir innan sjávaútvegsins og stjórnmálanna töldu að ríkisstjórnin hefði boðað í kjölfar Samherjamálsins. 

Boðuðu tillögur um breytt kvótaþak og tengda aðila

Þann 19. nóv­em­ber 2019 fund­aði rík­is­stjórn Íslands um „að­gerðir sínar til að auka traust á íslensku atvinnu­líf­i“. Það var gert til að bregðast við sívaxandi gagnrýni vegna viðbragðsleysis við opinberum Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera um málefni Samherja, sem sýndu að fyrirtækið liggi undur rökstuddum grun um að hafa greitt mútur til að fá aðgang að kvóta í Namibíu. Í opinberuninni voru líka settar fram grunsemdir um stórfellt peningaþvætti og skattasniðgöngu í starfsemi þessa stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins.

Þorri þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin boðaði hafði áður komið fram og voru því ekki nýjar af nál­inn­i. 

Dag­inn eft­ir, 20. nóv­em­ber, skrif­aði Krist­ján Þór Júl­í­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, grein í Morg­un­blaðið. Þar sagði að í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem birt var í janúar 2019, hafi komið fram að Fiskistofa kanni ekki með nægjanlega tryggum hætti hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða. Því þyrfti að endurskoða 13. og 14. greinar laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild verði skýrari. Í þeirri fyrrnefndu er kveðið á um að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en 12 prósent af úthlutuðum fiskveiðikvóta og farið yfir það hvaða aðilar teljist tengdir. Kristján Þór sagði að hann myndi fela verkefnisstjórn, sem hann hafði skipað í mars 2019 og átti að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, að hún myndi skila tillögum „þar að lútandi fyrir 1. janúar nk. Þá er að vænta tillagna frá nefndinni á næstu vikum um bætt eftirlit með fiskveiðum og með vigtun sjávarafla.“

Enginn vafi var, að mati viðmælenda Kjarnans úr sjávarútvegi og stjórnmálum, að verið væri að boða tillögur um breytingar á kvótaþaki, á skilgreiningu á því hvaða aðilar teljist tengdir og hvernig eftirliti með þessum þáttum, sem hafði verið ekkert, yrði háttað í framtíðinni. Ráðuneytið hafnar því hins vegar og segir að tillögurnar séu nákvæmlega þær sem boðaðar hafi verið. 

Endurskoðun ákvæðis um hámarksaflahlutdeild

Kjarninn spurðist fyrir um málið þegar tímafresturinn sem Kristján Þór og ríkisstjórnin hafði sett sér var liðin. Í svörum sem bárust í síðustu viku sagði: „Starfshópurinn hefur skilað tillögum um endurskoðun ákvæða laga um stjórn fiskveiða um hámarksaflahlutdeild sem kynnt verður á næstu dögum. Hópurinn hefur ekki skilað heildarendurskoðuninni, þar sem óskað var eftir því að hámarksaflahlutdeildin og tengda aðila yrði sett í forgang.“

Daginn eftir að þessi svör bárust var send út fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um tillögurnar. Í henni var greint frá fimm tillögum um breytta skilgreiningu á tengdum aðilum. Í þeim var hvorki fjallað um breytingar á kvótaþaki né breytingar á því hvað aðilar þyrftu að eiga í hvorum öðrum til að teljast tengdir, en samkvæmt gildandi lögum eru þau mörk 50 prósent. 

Því voru tillögurnar hvorki í samræmi við það sem Kristján Þór boðaði í grein sinni í Morgunblaðinu 20. nóvember né það sem ráðuneyti hans hafði sagt að tillögurnar snérust um í svari við fyrirspurn Kjarnans, sem barst 9. janúar. 

Kristján Þór sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í kjölfar þess að tillögurnar voru birtar að rekja mætti tilraunir starfsmanna Fiskistofu aftur um rúman áratug til að skilgreina hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ í lögum um stjórn fiskveiða. „Það sjá allir að slík staða er óviðunandi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru til þess fallnar að skýra það hvað felst í þessum hugtökum en jafnframt stuðla að skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Það er um leið mikill styrkur í því að starfshópurinn sem ég skipaði í mars sl. nái samstöðu um þetta flókna mál og gefur vonir um að þessar tillögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri vegar.“

Í verkefnastjórninni sitja Sig­urður Þórð­ar­son, sem er for­mað­ur, Bryn­hildur Bene­dikts­dótt­ir, sér­fræð­ingur á skrif­stofu sjáv­ar­út­vegs- og fisk­eldis í atvinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­inu, Elliði Vign­is­son, sveit­ar­stjóri Í Ölfusi og fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, Hulda Árna­dótt­ir, lög­maður og Oddný G. Harð­ar­dótt­ir, alþing­is­mað­ur Samfylkingarinnar.

Á meðal þeirra sem sitja í verkefnastjórninni er Elliði Vignisson, sveitarstjóri í Ölfusi.
mynd: Skjáskot

Tillögur verkefnastjórnarinnar eru dagsettar 30. desember 2019 og því átti það að liggja alveg kýrskýrt fyrir hvað í þeim fólst, og hvað ekki. Í bréfi sem formaður hennar, Sigurður Þórðarson, sendi Kristjáni Þór vegna tillöguskilanna segir enda: „Verkefnastjórnin vill taka fram, að í tillögum sem hér fylgja með er hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Verkefnastjórnin áformar að taka þessi atriði til skoðunar og fjalla um í lokaskýrslu sinni.“

Deilur innan hópsins um kvótaþak

Það er þó ekki þannig að full samstaða sé innan verkefnastjórnarinnar um öll þau atriði sem henni hefur verið falið að fara yfir. Heimildir Kjarnans herma að lítið sem ekkert hafi verið formlega rætt um hvert hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum eigi að vera vettvangi verkefnastjórnarinnar til þessa, en hún hefur starfað frá því í mars 2019. Þó er tiltekið í tillöguskjalinu að 50 prósent markið sé „mjög hátt“ og bent á að á fjármálamarkaði sé það til að mynda 25 prósent og hafi verið að lækka. 

Samkvæmt heimildum Kjarnans eru deilur á milli þeirra sem sitja í stjórninni um hvort lækka eigi kvótaþakið og nær öruggt að ekki muni nást full samstaða á meðal þeirra sem í henni sitja um niðurstöðu í þeim málum. Stefnt er að því að þær tillögur, þ.e. tillögurnar sem Kristján Þór boðaði að yrðu settar í flýtimeðferð, muni liggja fyrir í mars næstkomandi. 

Þess í stað snérust tillögurnar sem skilað var inn um skilgreiningar á tengdum aðilum. Á meðal þess sem skerpt verður á, verði tillögurnar innleiddar, er að hjón, sambúðarfólk og börn þeirra verði skilgreind sem tengdir aðilar. Þannig hefur það ekki verið hingað til. Athygli vakti að sú tillaga náði ekki yfir systkin, en dæmi eru um mikil krosseignartengsl milli slíkra í stórum íslenskum sjávarúvegsfyrirtækjum, t.d. hjá Brim og tengdum félögum. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans var ákveðið að styðjast við fordæmi úr lögum um fjármálafyrirtæki, en þeim lögum var breytt til að skerpa verulega á skilgreiningu um hvað teldust tengdir aðilar sumarið 2010, fyrir rúmum áratug síðan. Á þeim tíma þótti ekki nauðsynlegt að ráðast í sambærilegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. 

Skerpt á stjórnunarlegum tengslum

Önnur breyting sem verður nú í fyrsta sinn innleidd í lagaumhverfi sjávarútvegs er að ákveðin „stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða“. Í skýringum verkefnastjórnarinnar vegna þessa segir að þarna sé átt við tengsl milli lykilstarfsmanna, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra sem talin eru gefa vísbendingu um tengsl milli aðila. „Hér er þó farin sú leið að slá því ekki föstu að slík tengsl leiði til þess að félög teljist tengdir aðilar í skilningi laganna, heldur lagt til grundvallar að slík tengsl geri það að verkum að líklegra sé en ella að tengsl séu á milli félaganna nema sýnt sé fram á hið gagnstæða.“ 

Þarna er verið að bregðast við raunverulegum aðstæðum. Þekktasta og umdeildasta dæmið tengist Samherja og Síldarvinnslunni. Eigendur þess fyrrnefnda eiga, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni og eru þar með eins lítið undir meirihlutahlutfallinu og hægt er að vera. Þorsteinn Már Baldvinsson var auk þess forstjóri Samherja og stjórnarformaður Síldarvinnslunnar árum saman, þangað til að hann sagði af sér báðum störfum, að minnsta kosti tímabundið, eftir að Samherjamálið kom upp í fyrrahaust. Forsvarsmenn Samherja og Síldarvinnslunnar hafa hins vegar ætið svarið af sér að um tengda aðila væri að ræða. 

Fiskistofa framkvæmdi meira að segja frumkvæðisrannsókn á Samherja, Síldarvinnslunni og Gjögur, sem er næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar með 34,2 prósent eignarhlut, á árunum 2009 og 2010. Gjögur, sem er meðal annars í eigu Björgólfs Jóhannssonar, sitjandi forstjóra Samherja, og systkina hans, heldur einnig á 1,05 prósent alls kvóta um þessar mundir. Björgólfur er auk þess í stjórn Gjögurs. 

Sú rannsókn skilaði þeirri niðurstöðu að engin rök væru fyrir því að Samherji og Gjögur færu með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni. 

Í frétt sem birtist á vef Síldarvinnslunnar árið 2013, vegna sambærilegrar umræðu, sagði að um villandi fullyrðingar um tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja væri að ræða „þar sem viðkomandi aðilar hafa vísvitandi reynt að gera eignarhald á Síldarvinnslunni hf. tortryggilegt.“

Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu 20. nóvember síðastliðinn að þegar Samherji kynnti samstæðu sína erlendis þá var Síldarvinnslan kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Þetta sýndu glærukynningar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks birti vegna Samherjamálsins. 

Á Íslandi sögðu stjórnendur fyrirtækjanna því að þau væru ótengd. Erlendis voru þau kynnt sem hluti af sömu samstæðunni. 

Eru saman langt yfir kvótaþaki

Ástæðan er sú að ef Samherji og Síldarvinnslan væru flokkaðir sem tengdir aðilar væru þeir komnir langt yfir það 12 prósent kvótahámark sem eitt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, eða samstæða, má halda á. 

Í september 2019 var Sam­herji með 7,1 pró­sent kvót­ans. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síld­ar­vinnslan heldur á 5,3 pró­sent allra afla­heim­ilda og sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækið Berg­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar. 

Sam­an­lagt er afla­hlut­deild þess­ara aðila er því rúmlega 16,6 pró­sent, eða langt yfir lögbundnu hámarki. Sama gæti gilt um aðra hópa sem eru ráðandi í íslenskum sjávarútvegi. Ef skilgreiningum á tengdum aðilum, lækkun á kröfu um meirihlutaeign til að teljast tengdir aðilar og breyttar reglur um hámarkskvóta sem hver tengdur hópar má halda á þá gæti það meðal annars haft áhrif á Guðmund Kristjánsson, stærsta eiganda Brim, og aðila tengda honum, Kaupfélag Skagfirðinga og Vísi/Þorbjörn í Grindavík. Það ræðst hins vegar á því hversu miklar breytingarnar yrðu. 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er fyrrverandi stjórnarformaður Samherja og náin vinur Þorsteins Más. Hann hefur sagt sig frá ákveðnum ákvörðunum sem snúa að Samherja vegna mögulegs vanhæfis en ekkert bendir til þess, enn sem komið er, að hann ætli að eftirláta öðrum að taka ákvarðanir um mögulega breytingu á kvótaþaki eða skilgreiningu á tengdum aðilum. Þvert á móti kynnti hann skilgreiningartillögurnar fimm, sem verkefnastjórnin skilaði inn fyrir áramót, fyrir ríkisstjórnarfund á föstudag. Í tilkynningu var haft eftir honum að hann vonaðist til þess að tillögurnar myndu „stuðla að skil­virkara eft­ir­liti með reglum um hámarks­afla­hlut­deild.“

Í tillögunum sem kynntar voru á föstudag var einnig lagt til að skil­greint verði hvað felst í raun­veru­legum yfir­ráðum og að aðilar sem ráða meira en sex pró­sent af afla­hlut­deild eða 2,5 pró­sent af krókafla­hlut­deild skulu til­kynna til Fiski­stofu áætl­aðan sam­runa, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlut­deild eða kaup á hlut­deild og koma kaupin ekki til fram­kvæmda nema sam­þykki Fiski­stofu liggi fyrir. Auk þess mun Fiskistofa fá auknar heimildir til að afla gagna ef tillögurnar verða að lögum.

*Fréttaskýringunni var breytt lítillega klukkan 13:30 eftir athugasemd frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu við þá framsetningu að aðrar tillögur en boðaðar hefðu verið hefðu verið lagðar fram. Tekið var tillit til afstöðu ráðuneytisins og skerpt á orðalagi, þótt að viðmælendur Kjarnans hafi allir haft aðrar væntingar til innihalds tillagnanna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar