Mynd: Samsett helga vala þorgerður helgi hrafn

Þrír flokkar leggja til þrjár leiðir sem brjóta upp tangarhald á sjávarútvegi

Verði nýtt frumvarp að lögum verður tangarhald nokkurra hópa á íslenskum sjávarútvegi brotið upp. Allar útgerðir sem halda á meira en eitt prósent kvóta verða að skrá sig á markað og skilyrði um hvað teljist tengdir aðilar þrengd mjög. Þá mætti enginn einn eiga meira en tíu prósent í útgerð sem héldi á meira en átta prósent af heildarkvóta.

Þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér kúvendingu á því kerfi sem er við lýði vegna nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni. 

Í frumvarpinu felast þrjár megin breytingar. Í fyrsta lagi verði þeir aðilar skilgreindir sem tengdir sem eiga að minnsta kosti tíu prósent hlutafjár í öðrum sem heldur á meira en eitt prósent kvóta. Sama gildi um kröfur sem geri það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir eitt prósent hlutafjár eða meira. Samkvæmt gildandi lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga meirihluta í annarri útgerð til að hún teljist tengd, en eftirlit með því hvað teljist tengdir aðilar hefur auk þess verið í lamasessi. 

Í öðru lagi er lagt til að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag. 

Í þriðja lagi leggur frumvarpið til að að settar verði takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem fara með átta til tólf prósent af kvóta. Í frumvarpinu segir að í slíkum útgerðarfyrirtækjum eigi enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, að eiga „meira en tíu prósent af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum.“

Allur þingflokkur Viðreisnar stendur að frumvarpinu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, er fyrsti flutningsmaður þess. Auk þeirra eru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutningsmenn þess. Flokkarnir þrír sem standa að frumvarpinu hafa verið að mælast með á bilinu 35 til 38 prósent sameiginlegt fylgi í könnunum undanfarna mánuði og starfa þegar saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, ásamt Vinstri grænum.

Sagt aldrei mikilvægara út af Samherjaskjölunum

Í fréttatilkynningu frá Viðreisn vegna framlagningu frumvarpsins segir að þótt frumvarpið hafi verið í ríflega ár í undirbúningi hjá Viðreisn „þá hefur það sjaldan verið jafn mikilvægt og nú, í ljósi frétta af úr svonefndum Samherjaskjölum.“

Ljóst er að frumvarpið myndi kúvenda því kerfi sem nú er við lýði, þar sem mikil samþjöppun hefur átt sér stað á meðal þeirra sem hafa fengið úthlutað kvóta, eða hafa keypt úthlutaðan kvóta af öðrum.

Til að veiða fisk í íslenskri lögsögu þarf að komast yfir úthlutaðan kvóta. Slíkur er að uppistöðu í höndum nokkurra fyrirtækjahópa samkvæmt yfirliti um úthlutun sem Fiskistofa birti í september. Lög segja að tengdir aðilar megi ekki halda á meira en 12 prósent kvótans hverju sinni. 

Eins og lögin eru í dag má einn aðili halda á allt að tólf prósent af kvóta. Eftirlit með því hvort að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hafi farið yfir það mark hefur hins vegar verið í molum.

Kanna ekki yfirráð tengdra aðila

Ríkisendurskoðun benti á það í stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu, sem birt var í janúar síðastliðnum, að hún kanni ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög. Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni að ráðast þyrfti í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um „bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.

Vegna þessarar stöðu, þar sem eftirlitið hefur verið í molum, þá hefur átt sér stað mikil samþjöppun í geiranum.

Í sept­em­ber 2019 var Sam­herji, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins sem nýlega var ásakað um vafasama og mögulega ólöglega viðskiptahætti víða um heim, með 7,1 pró­­sent úthlutaðs kvót­a. Útgerð­ar­fé­lag Akur­eyr­ar, sem er í 100 pró­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,3 pró­sent kvót­ans og Sæból fjár­fest­inga­fé­lag heldur á 0,64 pró­sent hans. Síld­­ar­vinnslan heldur á 5,3 pró­­sent allra afla­heim­ilda og sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækið Berg­­ur-Hug­inn er síðan með 2,3 pró­­sent kvót­ans en það er að öllu leyti í eigu Síld­­ar­vinnsl­unn­­ar. 

Sam­an­lagt er afla­hlut­­deild þess­­ara aðila er því rúm­lega 16,6 pró­­sent.

Fleiri líka stórir

Brim, eina skráða sjávarútvegsfyrirtækið, er eitt og sér komið yfir kvótahámarkið í ákveðinni tegund og hefur sex mánuði til að koma sér undir það. Alls hélt félagið á 10,4 prósent alls kvóta í byrjun september.

Stærsti eig­andi Brim er Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­vík­­­ur, sem á um 46,26 pró­­sent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag var 1. sept­­em­ber síð­­ast­lið­inn með 3,9 pró­­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Auk þess var félagið Ögur­vík með 1,3 pró­­sent afla­hlut­­deild. Stærstu ein­­stöku eig­endur þess eru Guð­­mundur Krist­jáns­­son, aðal­­eig­andi Útgerð­­ar­­fé­lags Reykja­víkur og for­­stjóri Brims, og tvö syst­k­ini hans með sam­an­lagðan 36,66 pró­­sent end­an­­legan eign­­ar­hlut. Eigandi KG Fiskverkunar er Hjálmar Þór Kristjánsson, bróðir Guðmundar.

Sam­an­lagður kvóti þess­­ara þriggja félaga, sem eru ekki skil­­greind sem tengd, var því 15,6 pró­­sent í byrjun sept­­em­ber síð­­ast­lið­ins. 

Kaup­­fé­lag Skag­­firð­inga á síðan FISK Seafood, sem heldur á 5,3 pró­­sent heild­­ar­kvót­ans auk þess sem FISK á allt hlutafé í Soff­an­­ías Cecils­­son hf., en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,3 pró­­sent kvót­ans.. FISK á líka 32,9 pró­­sent í Vinnslu­­stöð­inni í Vest­­manna­eyjum sem er með fimm pró­­sent heild­­ar­afla­hlut­­deild. Sam­tals nemur heild­­ar­kvóti þess­­ara þriggja aðila 10,6 pró­­sent. 

Vísir og Þor­björn í Grinda­vík halda síðan sam­an­lagt á 8,4 pró­­sent af heild­­ar­kvót­­an­um, en þau tilkynntu fyrr á þessu ári að þau ætli sér að sameinast. Sam­an­lagt eru þessar fjórar blokkir á tæp­lega 53 pró­sent kvótans hið minnsta.

Á meðal annarra útgerða sem myndu þurfa að skrá sig á markað ef frumvarpið yrði að lögum eru Skinney-Þinganes (4,2 prósent af kvóta), Ísfélag Vestmannaeyja (3,8 prósent af kvóta) og Rammi hf. (3,5 prósent af kvóta).

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar