Fyrirtækið Stjörnuegg hf. áformar að innrétta núverandi eldishús fyrirtækisins að Vallá á Kjalarnesi með nýjum búnaði. Um er að ræða pallaskiptan varpbúnað fyrir varphænur sem verður til þess að hægt er að auka framleiðslugetu húsanna úr 50 þúsund fuglum í 95 þúsund. Að meðaltali yrðu um 75.000 verpandi hænur á búinu eftir breytingarnar og 10.000 yngri fuglar. Þetta kemur fram í tillögu að matsáætlun sem er nú í kynningarferli hjá Skipulagsstofnun.
Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem um er að ræða svokallað þauleldi alifugla með að minnsta kosti 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir fyrirhugaðri framkvæmd, þeim valkostum sem til greina koma, umhverfisþáttum sem taldir eru geta orðið fyrir áhrifum og hvernig framkvæmdaaðili hyggst standa að mati á umhverfisáhrifum. Drög að tillögunni voru kynnt um tveggja vikna skeið í lok árs 2017. Engin athugasemd barst.
Eggjabú hefur verið starfrækt á jörðinni Vallá á Kjalarnesi frá árinu 1970. Á árunum 2013 og 2015 voru reist þar tvö ný eldishús sem eru útbúin svokölluðum Aviary-varpbúnaði en í eldri húsum, sem eru fjögur talsins, hefur eldið farið fram í búrum og með lausagöngu hænanna á ristagólfum.
Stjörnuegg áformar nú að ráðast í endurnýjun á varpbúnaði í eldri húsunum og hætta þar með notkun á búrum og lausagöngu á ristum. Í tillögu að matsáætlun kemur fram að Aviary-varpkerfið sé byggt upp á pöllum, sem auki „aðgengilegt gólfrými fuglanna miðað við grunnflöt húsanna sjálfra. Með þessum breytingum eykst aðgengilegt rými og húsin geta rúmað fleiri fugla. Að auki bætir þetta aðstöðu til muna, t.d. hvað varðar þrif“.
Í tillögunni kemur ennfremur fram að með breytingu á búnaði megi auka framleiðslugetu búsins og mæta aukinni eftirspurn eftir eggjum. Þá segir að búið uppfylli kröfur um aðbúnað alifugla.
Í tillögunni, sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu, er áformuðu fyrirkomulagi lýst með eftirfarandi hætti: Að breytingum loknum verða alls 12 eldisdeildir á búinu og hverri deild skipt í rými fyrir að hámarki 4.000 fugla. Verður aðgengilegt svæði fyrir 8.000-13.360 fugla í deildum búsins. Þegar endurbótum og uppsetningu á Aviary-varpbúnaði er lokið verður á búinu aðgengilegt rými fyrir allt að 95.000 fugla á mismunandi vaxtarstigum.
Farið að reglum um velferð alifugla
Þar sem nýja varpkerfið er á pöllum eykst sá fermetrafjöldi sem hægt er að halda fugla á og verður samtals 6.525 fermetrar þó grunngólfflötur sé mun minni. Í tillögunni kemur einnig fram að í reglugerð um velferð alifugla skuli að hámarki vera 9 fuglar innan við 2,4 kíló að þyngd á hvern fermetra.
Samkvæmt tillögunni fer uppeldi hænuunga fram á búum í Sætúni og í Saltvík sem eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Vallá. Unghænur eru fluttar 13-18 vikna gamlar í eldishúsin á Vallá. Þá tekur við 4-5 vikna vaxtartími áður en fuglarnir hefja varp. Heildar dvalartími fugla í húsum á Vallá er um 60 vikur eða rétt rúmlega ár. Að þeim tíma liðnum er eldislotu lokið, eins og það er orðað, og hræjum fuglanna komið til urðunar hjá Sorpu. Síðan eru húsin tæmd, þrifin og sótthreinsuð. „Alls líður mánuður frá því að sláturfugl er fjarlægður uns nýjar unghænur koma inn í húsin.“
3.500 tonn af skít
Meðal þeirra umhverfisþátta sem fjallað er um í tillögunni, og ítarlegri grein verður gerð fyrir í frummatsskýrslu sem er næsta skref skipulagsferlisins, er að hænsnaskítur frá eldishúsum Vallá sé í dag fluttur á nærliggjandi bú, Geldingaá í Leirársveit. Þar er hann notaður sem áburður. Fyrirtækið Stjörnuegg hefur gert samkomulag við landeigendur Geldingaár og hefur til ráðstöfunar um 300 hektara lands til að dreifa skítnum auk heimatúna.
Aukið magn af hænsnaskít mun falla til frá eggjabúinu að Vallá á rekstrartíma vegna aukinnar framleiðslu. Í eldishúsi fellur skíturinn niður á færiband sem flytur hann í gám í enda hússins. Þaðan er hann fluttur að Geldingaá í Leirársveit.
Að jafnaði falla að sögn Stjörnueggs um 100 grömm af hænsnaskít frá hverjum fugli á dag. Sé miðað við hámarksnýtingu húsa með samtals 95.000 fuglum er áætlað árlegt magn skíts um 3.500 tonn.
Tillagan er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 27. júlí.