Leiðtogar aðildarríkja ESB munu hittast í Brussel næsta föstudag til að ræða tillögur Charles Michel, forseta leiðtogaráðs sambandsins, um fjárlög til næstu sex ára auk stærðar sameiginlegs björgunarpakka vegna COVID-19 efnahagskrísunnar. Ekki ríkir einhugur um þessar aðgerðir, en Michel hefur reynt að komast til móts við aðildarríki sem setja sig upp á móti auknum útgjöldum með tillögunum sínum .
Fyrsti fundur frá COVID
Michel boðaði til fundarins með fréttatilkynningu síðasta föstudag, en hann verður sá fyrsti í marga mánuði frá upphafi COVID-19 faraldursins.
Mikið mæðir á sambandinu vegna efnahagsáfalla í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar, en Michel segir í fundarboði sínu að ESB stefni að jöfnun kjara milli ríkja, aukinni þrautseigju og umbreytingu á hagkerfum aðildarríkjanna í björgunarpakkanum sínum. Sökum stærðar pakkans vill Michel breyta fjárhagsáætlun sambandsins til langs tíma samhliða pakkanum, og verður hún því einnig til umræðu á fundinum.
Sparsami kvartettinn
Á undanförnum mánuðum hafa öll áform um aukningu á sameiginlegum útgjöldum Evrópusambandsins mætt mikilli andstöðu frá ríkisstjórnum Danmerkur, Svíþjóðar, Hollands og Austurríkis.
Leiðtogar ríkjanna fjögurra, sem kalla sig „sparsama kvartettinn“ (e. the frugal four), segjast vilja hlífa skattborgurum fyrir meiri kvöðum frá Evrópusambandinu. Auk þess vilja þau meina að sambandið ætti að „sníða stakk eftir vexti“ og passa enn frekar upp á útgjaldaaukningu í kjölfar útgöngu Bretlands fyrr í ár.
Þegar ESB tilkynnti svo að fyrirhugaður björgunarpakki vegna COVID-krísunnar myndi nema um 700 milljörðum evra, sem að hluta til yrði fjármagnaður með sameiginlegum skuldabréfum, mótmælti Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, því einnig harðlega:
„Við leggjum algjöra áherslu á að ESB þurfi að nota peninginn sinn með skynsamlegum hætti... við viljum ekki að nettóframlög ríkjanna hækki sem afleiðingu af Brexit og COVID-krísunnar,“ sagði Rutte síðasta fimmtudag.
Ósátt með tillögurnar
Michel hefur reynt að komast til móts við ákall sparsama kvartettsins, en nýjar tillögur hans fela meðal annars í sér 26 milljarða evra niðurskurð í langtímafjárhagsáætluninni, auk sérstakar niðurgreiðslu til aðildarríkjanna fjögurra og Þýskalands.
Samkvæmt umfjöllun Politico um málið vöktu tillögurnar reiði ýmissa hagsmunaaðila, en niðurskurðurinn fæli í sér minni fjárútlát til margra sameiginlegra verkefna Evrópusambandsins í rannsóknum, þróunarstarfsemi og landamæravörslu.
Leiðtogar annarra aðildarríkja hafa einnig gagnrýnt seinagang Evrópusambandsins í að fá björgunarpakka samþykktan. Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, undirstrikaði mikilvægi skjótra aðgerða í þessum efnum með eftirfarandi Twitter-færslu í síðasta mánuði, þar sem hann sagði yfirvofandi kreppu á Evrusvæðinu verða dýpri eftir því sem útgáfa björgunarpakkans drægist á langinn:
Europa debe dar una respuesta a la altura de la crisis del #COVID19 y debe hacerlo rápido. La propuesta de la @EU_Commission, que hoy debatimos en el #EUCO, es un punto de partida, pero debemos alcanzar un acuerdo pronto. Cuanto más tiempo perdamos, más profunda será la recesión.
— Pedro Sánchez (@sanchezcastejon) June 19, 2020
„Rétta jafnvægið“
Að sögn Michel verður nauðsynlegt fyrir aðildarríkin „að finna rétta jafnvægið“ til þess að komast að pólitísku samkomulagi á fundinum næstkomandi föstudag. Óvíst er hvort þetta jafnvægi náist á fundinum, en Politico hefur eftir heimildarmönnum sínum að þörf sé á öðrum fundi í lok mánaðarins til að miðla málum.