Hópur 83 manna, sem eru í hópi þeirra ríkustu í heimi, hvetja ríkisstjórnir til að hækka til frambúðar skatta á þá sjálfa og aðra auðkýfinga til að ýta undir bata hagkerfisins vegna COVID-19.
Meðal þeirra sem rita nafn sitt undir hvatninguna er stofnandi ísrisans Ben and Jerry’s, Jerry Greenfield, og Abigail Disney, einn af erfingjum Disney-veldisins. Í opnu bréfi, sem m.a. hefur verið birt í breska dagblaðinu Guardian, hvetja þau ríkisstjórnir til að „hækka skatta á fólk eins og okkur. Strax. Umtalsvert. Til frambúðar“.
Í bréfinu segir að í faraldri COVID-19 leiki „milljónamæringar eins og við gegna lykilhlutverk í því að græða heiminn. Nei, við erum ekki þau sem hjúkra sjúkum á gjörgæsludeildum. Við erum ekki þau sem keyra sjúkrabílana sem flytja þá sjúku á sjúkrahús. Við erum ekki þau sem raða matvælum í poka sem sendir eru heim til fólks. En við eigum peninga, mikið af þeim. Peninga sem gríðarleg þörf er nú fyrir sem og næstu árin á meðan heimurinn er að jafna sig af þessum hamförum.“
Auðmannahópurinn varar við því að efnahagsleg áhrif faraldursins muni vara í áratugi sem gæti orðið til þess að ýta hálfum milljarði manna fram af brúninni og í fátækt.
Meðal þeirra sem rita nafn sitt undir bréfið er Stephen Tindall, annar ríkasti maður Nýja-Sjálands, og breski handritshöfundurinn og leikstjórinn Richard Curtis. Einnig ritar írski fjárfestirinn John O’Farrell, nafn sitt undir bréfið en hann hefur verið umfangsmikill í fjárfestingum í tæknigeiranum.
„Vandamálin sem COVID-19 hefur skapað og líka þau sem faraldurinn hefur afhjúpað verða ekki leyst með góðgerðum – sama hversu veglegar þær eru. Leiðtogar ríkisstjórna verða að taka þá ábyrgð að hækka útgjöld sem þarf og útbýta þeim með réttlátum hætti,“ segir í bréfinu. „Við stöndum í mikilli þakkarskuld við þá sem staðið hafa í framlínunni í baráttunni. Flest framlínufólkið er láglaunafólk en þarf að bera byrðarnar.“
Bréf auðmannanna er birt í aðdraganda G20-ráðstefnunnar en til hennar mæta fjármálaráðherrar stærstu iðnríkja heims sem og seðlabankastjórar þeirra ríkja. Í bréfinu eru stjórnmálamenn hvattir til að taka á misrétti sem á sér stað á alþjóðavísu og viðurkenna að skattahækkanir á hina ríku eru nauðsynlegur hluti af lausninni til langframa.
Í frétt Guardian um málið segir að fjöldi ofurríkra einstaklinga í heiminum haldi áfram aukast þrátt fyrir faraldur kórónuveirunnar. Sem dæmi hafi auðæfi Jeff Bezos, stofnanda Amazon og ríkasta manns veraldar, aukist um 75 milljarða Bandaríkjadala í ár. Hans auður er nú metinn á 189 milljarða dala. Bezos hefur látið 100 milljónir dala af hendi rakna vegna faraldursins. Það er innan við 0,1 prósent af öllum hans auði.
Yfir hálf milljón manna í heiminum er í hópi ofurríkra. Til að komast í þann hóp þarf viðkomandi að eiga meira en 30 milljónir dala.