Atvinnuleysi í júní mældist 9,5 prósent og lækkar umtalsvert milli mánaða en það var 13 prósent í maí. Almennt atvinnuleysi var 7,5 prósent í júní sem er mjög svipað og mánuðina tvo á undan en atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli er 2,1 prósent og hefur minnkað hratt.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi.
Í skýrslunni segir að atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli hafi lækkað hraðar heldur en gert var ráð fyrir. Til samanburðar mældist atvinnuleysi mest í apríl, 17,8 prósent, en af því var atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls 10,3 prósent. Í maí mældist atvinnuleysi 13 prósent og af því var atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls 5,6 prósent.
Rúmlega 16 þúsund atvinnulausir í almenna bótakerfinu
Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls haldi áfram að minnka, fari undir eitt prósent í júlí og lækki niður í hálft prósent í ágúst. Spá stofnunarinnar gerir ráð fyrir að mælt atvinnuleysi haldi áfram að lækka, verði 8,7 prósent í júlí en fari svo aftur hækkandi og nái 9,1 prósenti í ágúst.
Samkvæmt skýrslunni voru alls 16.165 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok júní og 6.742 í minnkuðu starfshlutfalli. Meðalbótahlutfall þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli í júní var um 60 prósent, sem er það sama og í maí.
Hrina hópuppsagna gengið niður
Vinnumálastofnun bárust þrjár tilkynningar um hópuppsagnir í júní þar sem sagt var upp 147 manns. „Sú hrina hópuppsagna sem hófst í mars tengt covid faraldrinum virðist þar með hafa gengið niður. Alls hefur um 7.400 manns verið sagt upp störfum í hópuppsögnum síðustu mánuði hjá um 110 fyrirtækjum, að stærstum hluta í ferðaþjónustu,“ segir í skýrslunni.
Þar segir enn fremur að gera megi ráð fyrir að stór hluti þeirra sem nú eru á uppsagnarfresti muni sækja um atvinnuleysisbætur að uppsagnarfresti liðnum. Af þeim sem hafa verið sagt upp munu nærri 4.000 hafa lokið uppsagnarfresti í byrjun ágúst og um 1.300 að auki í september.
Mest atvinnuleysi á Suðurnesjum
Samanlagt atvinnuleysi sem og atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls fer lækkandi alls staðar á landinu. Víðast hvar stendur almennt atvinnuleysi í stað eða fer lækkandi, nema á Suðurnesjum. Það fer úr 12,2 prósentum í maí upp í 13,2 prósent í júní. Samanlagt atvinnuleysi á svæðinu er því 15,9 prósent. „Ljóst er að erfið staða flugrekstrar og ferðaþjónustu er að bitna hart á atvinnulífi Suðurnesja, sem birtist í að almennt atvinnuleysi er að aukast yfir sumarmánuðina,“ segir í skýrslunni.
Næst mest er almenna atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 7,8 prósent. Samanlagt er atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu 9,9 prósent.