Bílaleigubílum í umferð fjölgaði um tæplega 2.500 á milli júní og júlí samkvæmt tölum frá Samgöngustofu sem finna má í skammtímahagvísum ferðaþjónustunnar sem Hagstofan birtir mánaðarlega. Í upphafi júlí voru bílaleigubílar í umferð alls 15.628 samanborið við 13.143 bíla í upphafi júní. Í júlí í fyrra voru bílaleigubílar í umferð rétt tæplega 25 þúsund.
Með því að skoða tölur á vef Hagstofunnar um bílaleigubíla eftir skráningu og mánuðum sést að fjölgunin er aðallega drifin áfram af bílaleigubílum sem snúa aftur á göturnar eftir að hafa verið teknir úr umferð.
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins brugðu bílaleigur á það ráð að taka stóran hluta af flota sínum úr umferð. Þá eru bílarnir teknir af númerum og við það sparast ýmis gjöld sem þarf að greiða af bílunum. Fjöldi bílaleigubíla sem voru úr umferð náði hámarki í maí en í upphafi þess mánaðar voru þeir 7.869. Í upphafi júlí voru alls 4.455 bílaleigubílar úr umferð.
Flotinn heldur líka áfram að minnka, heildarfjöldi bíla í eigu bílaleiga er nú rúmlega 20 þúsund og nemur fækkunin tæpum 700 bílum milli mánaða. Í júlí í fyrra voru alls 25.640 bílaleigubílar í flotanum svo hann hefur skroppið saman um fimmtung á síðastliðnu ári. Ekki hafa verið færri bílar í flotanum síðan í maí árið 2015.