Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur bætt fjórum löndum á lista yfir þau lönd sem ekki eru álitin áhættusvæði. Löndin eru Noregur, Danmörk, Finnland og Þýskaland. Þeir farþegar sem þaðan koma og hafa verið þar samfleytt í tvær vikur þurfa því ekki að fara í skimun á landamærunum eða í sóttkví við komuna til landsins. Fyrir voru Færeyjar og Grænland á lista yfir lönd sem ekki eru áhættusvæði. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag.
Fram kom í orðum Þórólfs að frá því 15. Júní hafa tæplega 49 þúsund farþegar komið til landsins og af þeim hafa rúmlega 27 þúsund undirgengist skimun. Af þeim hafa tólf greinst með virkt smit.
Þórólfur sagði lítið smit vera í íslensku samfélagi og að smithættan helst tengjast Íslendingum sem koma að utan sem og ferðamönnum sem hafa mikið tengslanet hér innanlands. Hann sagði það mikilvægt að við værum tilbúin til að bregðast við ef smit kæmi upp þó svo að þau séu fátíð í dag.
Áherslubreyting réttlætanleg
Hann sagði skimunina á landamærunum hafa verið mjög gagnlega og að æskilegt væri að henni yrði haldið áfram út júlímánuð áður en ákvörðun yrði tekin um það hvort hægt sé að breyta um áherslur, til dæmis um að hætta að skima einstaklinga frá þeim löndum sem smithætta er lítil. Á næstu dögum er líklegt að fjöldi þeirra farþega sem þurfa að fara í skimun fari yfir skimunargetu á landamærunum og því telur Þórólfur það réttlætanlegt að breyta áherslunum.
„Ég tel að það sé réttlætanlegt að flýta nýrri áherslu í skimunum. Fara í þetta fyrr, flýta því um eina til tvær vikur. Ég tel að við getum núna farið að hætta skimunum á þeim einstaklingum sem koma frá þeim löndum þar sem smithætta er lítil,“ sagði Þórólfur og vísaði þar til einstaklinga sem koma frá Noregi, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Færeyjum og Grænlandi.
Þeir einstaklingar sem ekki þurfa að fara í skimun eða í sóttkví eru beðnir um að fara varlega fyrstu tvær vikurnar eftir komuna til landsins.
Breytingar á Keflavíkurflugvelli tilbúnar á fimmtudag
Páll Þórhallsson, verkefnastjóri hjá forsætisráðuneytinu sagði Isavia nú vera að undirbúa komu þeirra farþega sem ekki þurfa að fara í skimun. „Farþegar úr þeim flugvélum verða teknir inn á öðrum stað heldur en þeir sem fara í gegnum skimunarsvæðið. Það er gengið út frá því að flestir farþegar í flugvélunum frá Kaupmannahöfn eða Ósló eða þýsku borgunum þurfi ekki að fara í skimun.“
Það sé þó alltaf möguleiki á því að farþegar úr þessum vélum þurfi að fara í skimun, hafi þeir til dæmis ekki dvalið samfleytt í fjórtán daga í löndunum sem um ræðir. Þeir farþegar verða þá leiddir inn á skimunarsvæðið. Páll sagði að þær breytingar sem þarf að gera á Keflavíkurflugvelli vegna þessa eiga að vera tilbúnar á fimmtudagsmorgun þegar þetta verklag tekur gildi.
Hann fjallaði einnig um nýja reglugerð dómsmálaráðherra um komur frá ríkjum utan EES og EFTA ríkjanna sem tekur gildi á morgun. Evrópusambandsríkin komu sér saman um að leyfa komur farþega frá 14 ríkjum utan Evrópu. Íbúum ríkjanna á þeim lista verður heimilt að koma til Íslands frá og með morgundeginum en þurfa engu að síður að fara í skimun eða sóttkví.
Seinni skimanir á höfuðborgarsvæðinu í Orkuhúsinu
Næstur tók til máls Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hann fjallaði meðal annars um seinni skimun sem er hluti af heimkomusmitgát. Á höfuðborgarsvæðinu væri starfsstöð í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut sem sæi um skimanir milli klukkan 10 og 15. Fyrir einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins er seinni skimun framkvæmd á heilsugæslustöðvum víða um land. Þeir sem þurfa að fara í slíka skimun fá tölvupóst eða sms með öllum helstu upplýsingum um staðsetningu og tíma skimunarinnar.