Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra óskaði í gær eftir flýtimeðferð á boðuðu dómsmáli sínu til að fá hnekkt úrskurði kærunefndar jafnréttismála, sem komst að því að ráðherrann hefði brotið gegn skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu þegar hún skipaði ráðuneytisstjóra í fyrra. Frá þessu er greint í frétt RÚV.
Lilja höfðaði mál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, sem kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að Lilja hefði brotið jafnréttislög með því að sniðganga í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með því að stefna Hafdísi Helgu ætlar ráðherra að reyna að ógilda úrskurð kærunefndarinnar.
Greint var frá því í byrjun júní að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra, samkvæmt úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Hún hafi vanmetið Hafdísi Helgu í samanburði við Pál. Hæfisnefnd hafði ekki talið Hafdísi Helgu í hópi þeirra fjögurra sem hæfastir voru taldir í starfið.
Páll, sem var skipaður í embættið síðla árs í fyrra, hefur um árabil gegn trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn en hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum árið 2000 og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins.
Í frétt RÚV kemur fram að Lilja hafi farið fram á það við kærunefndina að réttaráhrifum af úrskurðinum yrði frestað á meðan, sem nefndin hafi samþykkt með því skilyrði að málið yrði borið undir dómstóla innan þrjátíu daga og óskað yrði eftir flýtimeðferð. Þrjátíu dagar verða liðnir á fimmtudag.
Ríkislögmaður fer með málið fyrir Lilju, að því er fram kemur í fréttinni, en vegna tengsla embættis ríkislögmanns við forsætisráðuneytið var því útvistað til Víðis Smára Petersen lögmanns á Lex. Hann staðfestir við fréttastofu RÚV að formlega hafi verið óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær að málið fengi flýtimeðferð. Dómstjóri taki sér jafnan fáeina daga til að meta slíkar beiðnir og verði fallist á hana hafi Lilja og lögmaður hennar nokkra daga til viðbótar til að stefna Hafdísi fyrir dóm. Fallist dómstjóri ekki á flýtimeðferð verði málið engu að síður höfðað.