Fjölgun landa sem skilgreind eru utan svæðis með mikla smitáhættu skiptir miklu máli fyrir íslenska ferðaþjónustu að mati Jóhannesar Þórs Skúlasonar framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Í samtali við Kjarnann segir Jóhannes löndin sem um ræðir vera hluta af okkar kjarnamörkuðum og því mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að þau séu skilgreind örugg.
Á upplýsingafundi almannavarna í gær tilkynnti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að frá og með 16. júlí yrði löndum sem talin eru utan svæðis með mikla smitáhættu fjölgað úr tveimur í sex. Löndin sem bætast á listann eru Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland. Fyrir voru Færeyjar og Grænland á listanum. Farþegar sem koma frá þessum löndum og hafa verið þar samfleytt í 14 daga þurfa ekki að fara í skimun eða sæta sóttkví við komuna til landsins.
Samþætting efnahags- og sóttvarnalegra þátta
„Þetta er mjög skynsamleg samþætting á þessum efnahagslegu og sóttvarnalegu þáttum, byggð á þeim gögnum sem búið er að safna í skimunum hér heima og frá Evrópsku heilbrigðisstofnuninni,“ segir Jóhannes um ákvörðun sóttvarnalæknis.
Jóhannes segir sérstaklega mikilvægt að fá Þýskaland á listann. „Þjóðverjar eru með töluvert mikla ferðameðvitund gagnvart alls konar hindrunum þannig að þeir eru líklegir, líkt og við höfum séð á undanförnum viku, til að slá ferð á frest eða afbóka hana ef það eru miklar hindranir í gangi.“
Fleiri farþegar frá Suður-Evrópu í ágúst
Hann telur tímasetninguna einnig skipta máli: „Við sjáum það síðan að það að hafa gert þetta svona er mjög skynsamlegt hjá stjórnvöldum á þessum tímapunkti því það lá fyrir að það hefði þurft að fara í algjörlega ótækar aðgerðir gagnvart því að fella niður flug eða að breyta áður staðfestum lendingartímum sem einfaldlega hefði haft í för með sér alls konar vandamál,“ segir Jóhannes og vísar þar í niðurfellingu fluga sem að óbreyttu hefði þurft að ráðast í vegna takmarkaðrar skimunargetu á næstu dögum.
Þá gerir Jóhannes ráð fyrir því að flugum eigi eftir að fjölga í ágúst og að samsetning farþega breytast. Íbúar Suður-Evrópu fari í auknum mæli í frí í ágúst og þar af leiðandi muni fjöldi farþega þaðan aukast. Hann vonast til þess að hægt verði að halda áfram að finna lausnir til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna með skynsamlegum hætti.