Donald Trump forseti Bandaríkjanna ætlar að taka einhliða ákvörðun um að veikja einn af hornsteinum náttúruverndarlaga landsins með því að takmarka aðkomu almennings að ákvarðanatöku um stór verkefni á sviði innviðauppbyggingar. Þetta ætlar hann að gera til að flýta fyrir framkvæmdaleyfum fyrir hraðbrautir, orkuver og olíuleiðslur.
Ítarlega er fjallað um málið í fréttaskýringu í New York Times í dag. Þar segir að með því að takmarka þátttöku almennings í skipulagsferlum framkvæmda muni ríkisstjórn Trumps spara hundruð milljónir dala þar sem skemmri tíma mun taka verkefni að fá leyfi.
Hvíta húsið hefur staðfest að Trump ætli að kynna þessi áform sín á fundi í Atlanta í kvöld. Hann er sagður rökstyðja ákvörðun sína með þeim hætti að skipulagsmál séu alltof tímafrek eins og fyrirkomulagið er nú og tefji fyrir nauðsynlegri innviðauppbyggingu, m.a. á breikkun hraðbrautar í Georgíu-ríki.
Endurskoðun hinna 50 ára gömlu náttúruverndarlaga með þessum hætti er að því er fram kemur í fréttaskýringu New York Times ein stærsta lagabreyting sem stjórn hans hefur ráðist í en sú stjórn hefur nú þegar afnumið um 100 reglugerðir er snéru m.a. að verndun andrúmslofts og vatns og voru settar til að reyna að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum.
Þingmenn úr Repúblikanaflokknum, talsmenn olíufyrirtækja, byggingarverktakar og fleiri hópar hafa lengi sagt að skipulagsferli framkvæmda taki alltof langan tíma. Hafa þeir m.a. sakað náttúruverndarfólk um að nýta sér lögin til að halda verkefnum sem það leggst gegn í gíslingu.
Tímamörkin þrengd
Samkvæmt því sem heimildir New York Times herma verða sett hertari tímamörk á umhverfismat framkvæmda þannig að það taki ekki lengur en eitt til tvö ár. Þá á einnig að flokka framkvæmdir með öðrum hætti og fjölga þeim sem þurfa ekki að gangast undir slíkt mat.
Það sem heimildarmenn NYT segja enn fremur, og er að þeirra mati ein mesta breytingin, er að alríkisstofnanir þurfa ekki lengur að taka til greina áhrif innviðaframkvæmda á loftslagsbreytingar.
Talsmaður Miðstöðvar um líffræðilegan fjölbreytileika, Brett Hartl, sakar Trump um að hverfa aftur til fortíðar með þessu og til þess tíma þegar „ár urðu alelda, ekki var hægt að anda að sér loftinu og dýralíf var á hraðleið í átt að útdauða.“
Þegar breytt umhverfislögum
Miklar efnahagsþrengingar hafa orðið víða um heim vegna faraldurs kórónuveirunnar og eru Bandaríkin þar ekki undanskilin. Afléttingar takmarkana á samneyti fólks hafa orðið til þess að nýjum tilfellum hefur víða fjölgað gríðarlega hratt svo aftur hefur þurft að grípa til aðgerða. Trump hefur verið gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við faraldrinum en sjálfur hefur hann beint spjótum sínum að Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og Kínverjum.
Og nú hefur hann ítrekað sagt að slaka þurfi á þeim kröfum sem felist í umhverfis- og náttúruverndarlögum svo efnahagurinn komist aftur á sama ról og áður og hraðar en ella. Hann hefur þegar tekið skef í þessa átt. Í júní skrifaði hann undir forsetatilskipanir um breytingar á umhverfisverndarlögum (National Environmental Protection Act) og lögum um dýr í útrýmingarhættu „Endangered Species Act) svo hraða mætti ákveðnum framkvæmdum. Ákvörðunina réttlætti hann með þeim orðum að breytingin myndi „styrkja hagkerfið og koma Bandaríkjamönnum aftur til vinnu“.
Grunnstoð umhverfisverndar
Náttúruverndarlögin (National Environmental Protection Act) eru talin grunnstoð allra umhverfisverndarlaga Bandaríkjanna. Þau veita öllum bandarískum borgurum rétt til að tjá sig og gera athugasemdir við framkvæmdir hvort sem það eru vegir í gegnum bæina þeirra, stækkun á flugvöllum eða önnur risavaxin innviðaverkefni. Samkvæmt lögunum verða stofnanir að greina hvaða áhrif fyrirhugaðar framkvæmdir gætu haft á umhverfið út frá ýmsum þáttum, s.s. á dýralíf, losun gróðurhúsalofttegunda og þar fram eftir götunum.
Það er líklega ekki að ástæðulausu að Trump er að hugsa um þessi mál núna – rétt fyrir kosningar og rétt eftir að nokkur mál á þessu sviði hafa náð augum og eyrum almennings. Snemma í júlí komst umdæmisdómstóll að því að Dakota-olíuleiðslan, sem á að flytja olíu frá Norður-Dakóta til Illinois, þyrfti að fara í frekara umhverfismat. Sú fyrirhugaða framkvæmd hefur mætt gríðarlegri andstöðu og orðið tilefni fjöldamótmæla og margvíslegra kærumála. Í New York Times er haft eftir heimildarmönnum innan olíuiðnaðarins að breyting Trump á náttúruverndarlögunum muni ekki endilega þýða að Dakota-olíuleiðslan fái grænt ljós heldur að meðferð skipulagsmála af ýmsum toga, m.a. ítarlegra umhverfismati, muni taka skemmri tíma. Þá muni breytingin hafa áhrif á önnur slík verkefni sem eru í bígerð.
Í júlí staðfesti hæstiréttur Bandaríkjanna einnig niðurstöðu umdæmisdómstóls sem krafðist stöðvunar framkvæmda við Keystone-olíuleiðslunnar á grundvelli umhverfisreglna. Trump hefur sagt að hann hefði viljað sjá þessi tvö verkefni verða að veruleika.
Ekkert af þessu ætti þó að koma mikið á óvart. Trump hafði það á stefnuskránni frá upphafi að veikja umhverfisverndarlög í þessum tilgangi. Sjálfur var hann í fasteignaverkefnum margvíslegum áður en hann bauð sig fram til forseta.
Í New York Times segir að mögulega geti forsetinn ekki tekið þá ákvörðun að veikja náttúruverndarlögin einhliða. Samkvæmt lögum um endurskoðun ákvarðana forseta getur þingið snúið slíkum ákvörðunum við ef meirihluti er fyrir því.