Óafgreiddar umsóknir um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun eru 5.500 talsins og þar af eru 19 prósent eldri en átta vikna, eða 1.045 umsóknir. Áætlun stofnunarinnar miðar að því að í byrjun september verði allar umsóknir afgreiddar innan átta vikna. Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn Kjarnans.
Vinnsla atvinnuleysisbóta fer í gegnum þrjá fasa:
- Forvinna umsóknar þar sem kannað er hvort umsóknin uppfyllir skilyrði, hvort öll nauðsynleg gögn séu til staðar og ef einhver gögn vantar er kallað eftir þeim.
- Ákvörðun um bótarétt á grundvelli umsóknar og þeirra upplýsinga og gagna sem liggja fyrir.
- Útgreiðsla bóta.
Í svarinu segir að á milli ákvörðunar um bótarétt og útgreiðslu bóta verði að vera skýr aðskilnaður sem þýðir að sömu starfsmenn mega ekki koma að báðum þessum þáttum við vinnslu umsókna.
Biðtíminn lengri en æskilegt væri
Þá kemur fram að Vinnumálastofnun sé meðvituð um að biðtími eftir bótum sé lengri en æskilegt er því bak við hverja umsókn sé einstaklingur og fjölskyldur sem búa við óvissuástand í kjölfar atvinnumissis.
„Mjög mikil aukning í umsóknum um atvinnuleysisbætur auk nýrra verkefna sem stofnunin fékk í kjölfar COVID-19 faraldursins hefur orðið þess valdandi að biðtími er orðinn lengri en æskilegt væri,“ segir í svarinu.
Stofnunin hafi bætt við sig fólki, endurskipulagt ferla og forgangsröðun til að mæta þessu en það taki tíma áður en þær aðgerðir skili sér að fullu.
Nú stendur yfir smíði á nýju tölvukerfi fyrir Vinnumálastofnun sem stefnt er að að verði tekið í notkun í byrjun næsta árs. Það standa vonir til að við innleiðingu þess muni ferlið við afgreiðslu atvinnuleysisumsókna styttast til muna, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar.
Atvinnuleysi lækkar milli mánaða – en á þó hugsanlega eftir að aukast aftur
Atvinnuleysi í júní mældist 9,5 prósent og lækkar umtalsvert milli mánaða en það var 13 prósent í maí. Almennt atvinnuleysi var 7,5 prósent í júní sem er mjög svipað og mánuðina tvo á undan en atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli er 2,1 prósent og hefur minnkað hratt. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi.
Í skýrslunni segir að atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli hafi lækkað hraðar heldur en gert var ráð fyrir. Til samanburðar mældist atvinnuleysi mest í apríl, 17,8 prósent, en af því var atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls 10,3 prósent. Í maí mældist atvinnuleysi 13 prósent og af því var atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls 5,6 prósent.
Í Hagsjá Landsbankans sem birtist í dag segir að almennt atvinnuleysi muni trúlega aukast nokkuð fram í september enda mikið af hópuppsögnum að koma til framkvæmda síðsumars, einkum í ágúst. Líklegt sé að almennt atvinnuleysi fari yfir 8 prósent í ágúst, en atvinnuleysi tengt hlutabótaleiðinni verði þá hverfandi, enda muni sú leið renna sitt skeið á enda í lok ágúst.