Sex þeirra sem greinst hafa með virk smit eftir skimun við komuna til landsins eru búsettir á Íslandi. Samtals hafa 14 greinst með virk smit við komuna til landsins frá 15. júní. Tveir smitaðir einstaklingar eru búsettir í Danmörku, tveir í Bandaríkjunum og einn einstaklingur frá eftirfarandi löndum: Lúxemborg, Albaníu, Svíþjóð og Póllandi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá þessu á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag. Á fundinum sagðist hann ætla að mæla fyrir því að fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar í upphafi ágúst, þó ekki fyrr en eftir verslunarmannahelgi.
„Í ljósi þess að það hefur verið lítið eða ekkert smit sem hefur greinst undanfarnar tvær vikur hér innanlands held ég að hægt sé að mæla fyrir rýmkun á fjöldatakmörkunum fyrr en ég talaði um,“ sagði Þórólfur. Líklega muni hann mæla með því að hámarkið verði rýmkað upp í þúsund manna hámark. Þá sagði hann að sama gilti um opnun veitinga og skemmtistaða, líklega væri hægt að rýmka opnunartíma í byrjun ágúst.
20 prósent farþega eru Danir
Meðal tölulegra gagna sem Þórólfur fór yfir á fundinum var komur farþega frá löndum sem talin eru örugg. Hann sagði að af þeim 53 þúsund farþegum sem hingað hafi komið frá 15. júní væru 20 prósent búsettir í Danmörku, 18 prósent í Þýskalandi, 15 prósent á Íslandi og sex prósent í Noregi. Alls eru því um 60 prósent af farþegum sem hingað koma búsettir á öruggum svæðum og því undanþegnir skimun eða sóttkví miðað við núgildandi verklag. Inni í þessum tölum eru ekki farþegar sem búsettur eru í hinum öruggu löndunum; Finnlandi, Færeyjum og Grænlandi.
Hann benti auk þess á að Ísland flokkist strangt til tekið til öruggra landa. Þannig að þeir Íslendingar sem ferðast erlendis þurfa ekki að fara í skimun við heimkomu hafi ferðalagið verið bundið við þá staði sem taldir eru öruggir.
Biðlar til fólks að fara varlega um verslunarmannahelgi
Í upphafi fundar hrósaði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, þeim aðilum sem hafa þurft að taka erfiðar ákvarðanir vegna stórra viðburða sem nú hefur verið aflýst. Í því samhengi nefndi hann Dalvíkinga sem hafa ákveðið að aflýsa Fiskideginum mikla sem og Vestmanneyingum sem hafa ákveðið að aflýsa Þjóðhátíð. „Svona ábyrg afstaða hjálpar okkur öllum þegar upp er staðið,“ sagði Rögnvaldur.
Rögnvaldur biðlaði einnig til fólks um að taka ábyrga afstöðu og sýna ábyrga hegðun um verslunarmannahelgi. „Það er alveg ljóst að mjög margir vilja skemmta sér eins og þau hafa gert í gegnum tíðina með tilheyrandi útilegu og gleði. En við viljum endilega hvetja fólk til að fara mjög varlega og huga að þessum markmiðum sem að eru á bak við þessar takmarkanir sem eru í gildi og tilgang þeirra.“
Nýtt fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli fer vel af stað
Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, sagði breytt fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli ganga vel. Það þarf að fara í gegnum farþegahópinn og fara yfir hvort að undanþágur eigi við um tiltekna farþega, enda geta farþegar í flugi frá Þýskalandi verið að koma frá löndunum í kring, til dæmis nefndi hann Austurríki og Sviss.
Þá sagði Páll einhverja farþega sem ekki þyrftu að fara í sýnatöku hafa forskráð sig og borgað fyrir sýnatöku en hann tók það fram að auðvelt væri að endurgreiða þeim sem ekki þurfa á sýnatöku að halda.