„Ég vara eindregið við þessu. Í guðs almáttugs bænum – það verður að stoppa þetta,“ segir Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, doktor í raddfræðum, um nýja auglýsingaherferð Íslandsstofu þar sem fólk er hvatt til að öskra til að losa um streitu. Ekki nóg með það heldur á að útvarpa öskrunum úti í íslenskri náttúru en eitt helsta aðdráttarafl hennar til þessa hefur verið kyrrðin. Kyrrðin sem einmitt getur verið streitulosandi.
Valdísi var brugðið er hún sá fréttir af öskurherferðinni sem nú hefur verið ýtt úr vör með það að markmiði að hvetja fólk til að ferðast til Íslands. Fréttirnar sá hún bæði í íslenskum fjölmiðlum og í danska sjónvarpinu. „Þannig að þetta er orðið það sem krakkarnir kalla „hot“ og „in“. Það þarf að stoppa þetta af.“
Doktor Valdís hefur í tæpa hálfa öld verið upptekin af röddinni og barist fyrir vernd hennar. Hún er menntaður grunnskólakennari og heyrnar- og talmeinafræðingur en að auki er hún með meistaragráðu sem og doktorsgráðu í rödd og raddumhirðu (e. Voice ergonomics).
Svo þegar Valdís talar ætti fólk að leggja við hlustir. Hún veit meira en flestir um þetta fyrirbæri röddina sem við tökum flest sem sjálfsögðum hlut.
Það skýrir einmitt að mati Valdísar þekkingarleysið í samfélaginu – hið sama þekkingarleysi og einkennir svo herferðina. „Röddin myndast fyrirhafnarlaust og án þess að við verðum virkilega vör við það,“ útskýrir hún. „Raddböndin eru tilfinningalaus og álagið sem þau verða fyrir veldur því ekki sársauka. Ef ég byði þér að fara úr skónum og sparka í vegg myndir þú auðvitað segja nei. Þá myndi ég spyrja af hverju og þú myndir svara: Af því að ég myndi finna til og jafnvel brjóta eitthvað. Þetta er nákvæmlega sama og það sem gerist með röddina nema það að þú finnur ekki til þegar þú reynir á hana af krafti.“
Það er einmitt þessi kraftur sem beita þarf á raddböndin til að öskra sem skapar hættuna á skaða, jafnvel til frambúðar. „Það er ábyrgðarhluti að hvetja fólk til að losa sig við streitu á þennan hátt. Þá er búið að leysa eitt vandamál til þess að fá annað í staðinn. Þetta byggir á þekkingarleysi. Ef ferðamálaráðherra vissi af þessu þá myndi hún örugglega ekki vera að hvetja fólk til að öskra.“
En hvers vegna skaðar það röddina að öskra?
Einföld samlíking í boði Valdísar: „Það er best að lýsa þessu með því að ímynda sér fána sem er að berjast um í tíu vindstigum. Það álag verður að lokum til þess að hann trosnar í endana – það gefur sig eitthvað. Og það er það sem gerist í raun og veru með raddböndin.“
Og hér er ein til viðbótar: „Ef þú ættir nýtt stofuborð sem þú hefðir keypt fyrir tugi þúsunda þá myndi þér aldrei detta í hug að fara með sandpappír á það. Af hverju ekki? Af því þú eyðileggur það.“
Og þetta er það sem öskur gerir. „Það verður of mikill kraftur á raddböndin svo þau gefa eftir.“
Og nú er augljóslega brýn þörf á því að hefja vitundarvakningu um röddina því þótt Valdís hafi árum saman í ræðu og riti fjallað um mikilvægi hennar „finnst mér ég stundum vera hrópandi í eyðimörkinni.“
Og svo er öskurherferð kynnt til sögunnar.
Valdís hefur lengi barist fyrir því að dregið verði markvisst úr hávaða í leik- og grunnskólum. Þar getur hávaðinn orðinn mikill og jafnvel einkennst af öskrum. Það skýrist af því að börn þekkja oft ekki muninn á því að kalla og öskra. „En það er töluverður munur á þessu tvennu. Hann felst í því að það getur verið skaðlegt að öskra.“
Í rannsóknum sínum hefur Valdís beint sjónum sínum að röddum kennara. Hjá þeim líkt og í mörgum starfsstéttum er röddin þeirra helsta atvinnutæki. En óboðlegar aðstæður geta skapast, m.a. vegna of margra nemenda í hverri kennslustund og þar fram eftir götunum, sem verða til þess að kennarar þurfa að hækka róminn. Og að gera það yfir langan tíma býður hættunni heim. Við þessar óboðlegu aðstæður þurfa börnin svo að búa með tilheyrandi einbeitingarskorti.
„Raddskaði er falinn atvinnusjúkdómur hér á landi,“ segir Valdís og að rannsóknir sínar bendi til að um tíu prósent kennara séu ekki með boðlega rödd til kennslu. Þeir kennarar sem helst eru útsettir fyrir raddskaða eru íþróttakennarar og leikskólakennarar. Í viðtali við N4 fyrir nokkru sagði leikskólakennari sögu sína af því að missa röddina og þá innilokunarkennd sem hann upplifði í kjölfarið.
„En um leið og röddin er orðin fagurfræðileg, hjá söngvurum og leikurum, þá er farið að hugsa betur um hana, það er passað betur upp á hana og hlúð að henni,“ segir Valdís.
Það eru því til aðferðir til að vernda röddina – en þeim þarf þá að beita.
Líka rannsóknir til um raddskaða af öskrum
En getur eitt öskur skemmt röddina? Eða þarf að öskra oft á löngum tíma svo skaði verði?
Valdís minnir á að líkami hvers og eins sé einstakur. „Það sem einn þolir lítið af getur annar þolað mikið af.“ Öskur sé manninum eiginlegt hljóð. En með það verði að fara sparlega.
Í fréttatilkynningu Íslandsstofu um öskurherferðina umtöluðu kom fram að hún sæki „innblástur til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra af öllum lífs og sálar kröftum“. Valdís segir að það megi vel vera að sálfræðingar hafi margar rannsóknir að styðjast við sem bendi til þessa. „En það eru líka til jafn virtar rannsóknagreinar um hvernig öskur getur skaðað rödd og jafnvel eyðilagt hana.“
Hún bendir einnig á að það að missa röddina geti valdið ýmiskonar vanlíðan, meðal annars streitu. „Það sem hryggir mig mest er hversu almennt þekkingarleysið á mikilvægi raddarinnar er. Þarna hefur menntakerfið brugðist. Enn taka allir röddinni sem sjálfsögðum hlut, rétt eins og að anda og borða. En röddin er það ekki og það þarf ekki háskólagráðu til að skilja það. Allir sem hugsa út í þetta ættu að sjá að það hlýtur að vera líffærastarfsemi á bak við raddmyndun.“
Þess vegna finnst henni í „raun og veru svakalegt“ að sjá öskurherferðina verða að veruleika. „Að leggja það til að fólk öskri til að losa um streitu á kostnað einhvers annars. Er ferðamálaráðherra tilbúinn að leggja blessun sína yfir það?“
Kyrrðin er slakandi fyrirbæri
Hægt væri að finna ýmsar leiðir til að hjálpa fólki að fá útrás. Að hvetja til dans og söngs séu ágæt dæmi. „Fyrir utan það að ég myndi ekki vilja vera úti í íslenskri náttúru, þangað sem ég fer til að reyna að komast úr hávaðanum, til að hlusta á öskur, þó að desibelunum eigi að stilla í hóf. Ég hélt að við værum að auglýsa þessa náttúru okkar einmitt sem stað þar sem hægt er að njóta kyrrðar sem hvergi er hægt að fá annars staðar. Ég hefði haldið að kyrrðin væri einmitt slakandi fyrirbæri.“
Valdís er fylgjandi því að farið verði í átak til að auglýsa landið okkar en að aðferðinni sem sé beitt í þessari herferð – að hvetja til öskra – sé hins vegar byggð á þekkingarleysi. Og þegar þekkingarleysi og sársaukaleysi öskra koma saman blasi hættan við. „Við megum ekki vera að bjóða fólki upp á að skemma í sér röddina. En með þessu er verið að gera það.“