Á öðrum ársfjórðungi ársins fluttust 570 íslenskir ríkisborgar til landsins en 290 fluttust erlendis. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um mannfjöldaþróun. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, alls 170, frá Noregi komu 60 og frá Svíþjóð 110. Til þessara landa fluttu 170 íslenskir ríkisborgar af þeim 290 sem alls fluttu erlendis á tímabilinu.
Þróunin var á hinn veginn hjá erlendum ríkisborgurum og er þetta í fyrsta sinn síðan 2012 sem flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara er neikvæður. Alls fluttust 1.350 erlendir ríkisborgarar frá landinu og fóru flestir til Póllands, alls 430 manns. Pólland var einnig upprunaland flestra erlendra ríkisborgara sem hingað fluttu á ársfjórðungnum en þaðan fluttust 270 til landsins af alls 1.100 erlendum innflytjendum. Næstflestir komu frá Litháen, alls 80 manns.
Samtals bjuggu 366.700 manns á landinu við lok annars ársfjórðungs, 188.330 karlar og 178.370 konur. Landsmönnum fjölgaði um 560 á tímabilinu eða um 0,2 prósent. Alls bjuggu 234.910 á höfuðborgarsvæðinu en 131.790 utan þess.
Á ársfjórðungnum fæddust 1.090 börn en 550 einstaklingar létust.