Niðurstaða nýrrar rannsóknar á uppruna plasts í hafinu er sú að örsmáar plastagnir, svokallað örplast, berst í meira mæli með vindi út í sjó en með ám, ólíkt því sem áður var talið. Í rannsókninni var sjónum beint að örsmáum ögnum, svifryki, sem verða til þegar dekk og bremsuklossar eyðast. Samkvæmt mati vísindamannanna verða um 550 þúsund tonn af ögnum sem eru minni en 0,01 mm til með þessu móti á hverju ári. Um helmingurinn eða um 200 þúsund tonn endar í hafinu. Þá er það niðurstaða vísindamannanna að um 80 þúsund tonn falli árlega á afskekktum svæðum og á snævi þöktu landi og jöklum. Agnirnar eru svartar og draga því í sig hita frá sólinni og því gætu þær hraðað bráðnun jökla .
Í umfjöllun Guardian um rannsóknina segir að örplast hafi fundist um alla jörðina allt frá heimskautasvæðum til tinda hæstu fjalla. Þá er þær einnig að finna á botni dýpstu hafsvæða. Þessar agnir geta innihaldið skaðleg efni og þær hafa valdið skaða á lífríkinu í sjónum. Þá er einnig vitað að þær enda í ýmsum matvælum og drykkjarvatni og þannig komast þær inn í líkama fólks.
Fyrri rannsóknir höfðu gefið vísbendingar um að örplast færi um heiminn með vindum en sú norska er sú fyrsta sem leggur mat á magn efnanna sem ferðast með þeim hætti.
Vísindamennirnir einbeittu sér að ögnum úr bíldekkjum og bremsuklossum þar sem þegar er að finna góð gögn um hvernig þær verða til. „Vegir eru veigamikil uppspretta örplasts sem endar á afskekktum svæðum, þar á meðal í hafinu,“ hefur Guardian eftir Andreas Stohl hjá Loftgæðastofnun Noregs sem leiddi rannsóknina. Hann segir að meðaldekk tapi um fjórum kílóum af þyngd sinni á líftíma sínum. Stohl segir dekkin því mun stærri uppsprettu örplasts en til dæmis föt.
Skýringin á því að útbreiðsla örplasts í andrúmsloftinu hefur verið vanmetin til þessa er sú að það er mjög erfitt að rannsaka hana af því að agnir sem geta borist með lofti eru svo gríðarlega smáar og erfitt að bera kennsl á uppruna þeirra. En þessar allra minnstu agnir eru að mati Stohl þær skaðlegustu þegar kemur að áhrifum á heilsu og vistkerfi. Þær eru svo litlar að líklegast geta þær komist inn í blóðrás fólks og dýra.
Niðurstaða rannsóknarinnar var nýverið birt í vísindatímaritinu Nature Communications.
Stohl segir að þar sem niðurstaðan sé fengin með líkindum, m.a. út frá áætluðu magni agna úr dekkjum og bremsuklossum og hermilíkönum á vindakerfi heimsins ríki töluverð óvissa um hvert agnirnar dreifast. Þær gætu t.d. fallið fyrr til jarðar eða í hafið ef það rignir en hermilíkanið áætlar.
Ef ekkert slíkt truflar ferð hinna örsmáu agna geta þær borist með loftinu jafnvel í heilan mánuð.
Ekki hefur hingað til mikið verið rætt um dekk og bremsuklossa sem uppsprettu örplasts. Hingað til hefur aðallega verið rætt um notkun bíla í tengslum við umhverfismál vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Rafmagnsbílar eiga að margra mati að draga úr þeim vanda en eftir situr að rafmagnsbíll er að jafnaði þyngri en bíll að svipaðri stærð sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti. Það þýðir meira álag á dekk og bremsur, bendir Stohl á.
„Þessi rannsókn sýnir hversu samtengd afskekktustu svæði heims eru við athafnir okkar í borgum og á vegum,“ segir Erik van Sebille sem kennir við háskólann í Utrecht og er í teymi Stohls.