Íslenskir atvinnuflugmenn eru ósáttir við þá stöðu sem komin er upp hjá Icelandair. Þetta segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna í samtali við Kjarnann. Flugmenn munu að óbreyttu ganga í störf flugfreyja- og þjóna frá og með mánudegi sem öryggisliðar um borð í vélum Icelandair.
„Okkar afstaða er bara þessi sem við höfum lýst. Við erum ekkert sáttir við þessa stöðu en við erum náttúrlega ekki aðilar að þessari deilu og við bara óskum þess heitt og innilega að fólk setjist niður og semji eins og siðaðra manna er háttur,“ segir Jón Þór.
Hann segir loftferðalög skylda flugmenn til að ganga í þessi störf. „Flugstjóri er endanlega ábyrgur fyrir öllum öryggisþáttum um borð í flugi og við náttúrlega vinnum eftir lögum um loftferðir og vinnum eftir flugrekstrarfyfirmælum þess fyrirtækis sem við vinnum hjá og við förum eftir þeim, Þar til eitthvað annað breytist. Við getum ekki vikið okkur undan því.“
Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði að samningaviðræður við Flugfreyjufélag Íslands kæmust ekki lengra og að þeim væri lokið. Í tilkynningunni kom einnig fram að flugmenn félagsins muni starfa tímabundið sem öryggisliðar frá og með mánudeginum 20. júlí. Þar kom einnig fram að félagið gerði ráð fyrir „að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu“.