Alls bjó 50.701 erlendur ríkisborgari á Íslandi þann 1. júlí 2020 og fjölgaði þeim um 1.354 frá 1. desember síðastliðnum. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá sem birtar voru í dag. Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum búsettum hér á landi um 1.171.
Í tilkynningu frá Þjóðskrá kemur fram að pólskir ríkisborgarar sem hér búa eru nú 20.904 og fjölgaði þeim á tímabilinu um 230. Næst mest var fjölgunin meðal rúmenskra ríkisborgara, um 178.
Ef litið er til þeirra landa hvaðan flestir íbúar landsins koma, þá er fjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara frá Póllandi. Þar á eftir kemur Litháen, en litháískir ríkisborgarar hér á landi eru alls 4.711. Á eftir Litháen kemur Rúmenía en þaðan koma 2.224 íbúar.
Í síðustu viku birti Hagstofan tölur um mannfjöldaþróun þar sem fram kom að á öðrum ársfjórðungi ársins hafi flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara verið neikvæður í fyrsta sinn síðan árið 2012. Á öðrum ársfjórðungi fluttust 250 fleiri erlendir ríkisborgarar til útlanda heldur en til Íslands.