Bráðnun íssins á norðurslóðum gæti orðið til þess að hvítabjörnum fækki hratt vegna hungurs upp úr árinu 2040. Vísindamenn hafa nú, í fyrsta skipti, spáð fyrir um hvenær hvítabirnir verða nánast horfnir. Ef fram heldur sem horfir gæti það orðið raunin um árið 2100 eða eftir um áttatíu ár.
Í nýrri rannsókn sem birt er í vísindatímaritinu Nature Climate Change kemur fram að með aukinni bráðnun íssins verði það hvítabjörnum stöðugt erfiðara að leita sér að æti. Þegar hungrið er komið inn í myndina er líklegt að hægja muni á tímgun dýranna og þeim fer að fækka af þeim sökum. Að mati vísindamannanna mun þessi staða verða komin upp hjá mörgum ísbjörnum eftir um tvo áratugi. Þá munu stofnar bjarnanna á ákveðnum svæðum deyja út.
Í rannsókninni, sem leidd var af kanadískum vísindamanni við háskóla í Toronto, var kannað hvaða áhrif tvær sviðsmyndir hefðu á afkomu hvítabjarna. Í annarri var reiknað með sömu losun gróðurhúsalofttegunda eins og hefur átt sér stað síðustu ár. Við þær aðstæður telja þeir líklegt að um næstu aldamót verði hvítabirni aðeins að finna á nyrstu eyju kanadíska heimskautaklasans, Eyju Elísabetar drottningar. Í hinni sviðsmyndinni var gert ráð fyrir að dregið yrði lítillega úr losuninni en við þær aðstæður er engu að síður líklegt að því er fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar, að meirihluti hvítabjarna á norðurskautinu verði hættur að fjölga sér árið 2080.
Talið er að innan við 26 þúsund hvítabirnir séu í heiminum í dag og dreifast þeir um nokkur svæði, m.a. Svalbarða, Hudson-flóa við Kanada og hafsvæðið á milli Alaska og Síberíu. Ísbirnir veiða úti á ísnum og þegar hann hörfar gerir hvítabjörninn það einnig.
Í frétt Guardian er haft eftir aðalhöfundi rannsóknarinnar, líffræðingnum Péter Molnár, að lengi hafi verið vitað að hvítabjörnum stafaði ógn af bráðnun íssins á norðurslóðum. Hins vegar hafi verið óvíst um hvenær vænta mætti hraðrar fækkunar dýranna af þessum sökum.