Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 649,0 stig í júní 2020 og hækkar um 0,2 prósent á milli mánaða. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands.
Á síðustu þremur mánuðum hefur vísitalan hækkað um eitt prósent, síðasta hálfa árið hefur hún hækkað um 2,2 prósent og síðastliðna 12 mánuði hefur hún hækkað um 3,8 prósent.
Vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Undanfarna mánuði hefur þinglýstum kaupsamningum utan höfuðborgarsvæðisins fjölgað en kaupsamningum innan höfuðborgarsvæðisins fækkað. Í júní var fleiri kaupsamningum þinglýst utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess. Það er í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því að mælingar Þjóðskrár hófust.