Alls hafa 205 milljónir króna verið greiddar út í formi ferðagjafar ríkisstjórnarinnar nú þegar um mánuður er liðinn frá því að opnað var fyrir notkun hennar. Ferðagjöf er 5.000 króna ávísun sem einstaklingar með lögheimili á Íslandi, fæddir árið 2002 eða fyrr, geta fengið til kaupa á einhvers konar ferðatengdri þjónustu eða afþreyingu innanlands.
Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna ferðagjafarinnar er um 1.500 milljónir króna, þannig að tæp 14% hafa nýtt gjöfina það sem af er sumri. Ferðagjöfina þarf að nýta fyrir árslok 2020.
Minnst gist á Suðurnesjum og hálendinu
Flestir nýta ferðagjöfina til að kaupa gistingu en alls hafa 66 milljónir króna í formi ferðagjafa runnið til gististaða víða um land, eða ríflega 32 prósent heildarupphæðarinnar. Þeir sem nýta gjöfina upp í gistingu kjósa flestir að halla sínu höfði á Suðurlandi, Vesturlandi eða á höfuðborgarsvæðinu. Alls hafa 44 milljónir króna runnið til gististaða á þessum svæðum.
Norðlenskir gististaðir hafa tekið við tæpum 11 milljónum króna í formi ferðagjafa sem skiptist tiltölulega jafnt milli Norðurlands vestra og eystra, rúmar fimm milljónir í hvorn landshluta. Gististaðir á Austurlandi hafa fengið sjö milljónir króna í formi ferðagjafa og á Vestfjörðum hafa ferðagjafir að andvirði fjórar milljónir króna runnið til gististaða.
Fæstir nýta ferðagjöfina til að kaupa sér gistingu á Suðurnesjum og hálendi Íslands. Hálf milljón króna hefur farið á gististaði á Suðurnesjum gegnum ferðagjöfina og innan við tvö hundruð þúsund krónur í gistingu á hálendi Íslands.
Baðstaðir víða um landið trekkja að
Nærri jafnhá upphæð og runnið hefur til gististaða hefur farið í ýmiss konar afþreyingu, alls 60 milljónir króna. Í þeim flokki er ferðagjöfin mest nýtt á höfuðborgarsvæðinu eða fyrir 17 milljónir króna. Næst mest á Norðurlandi eystra þar sem 11 milljónir hafa verið skildar eftir í formi ferðagjafar síðastliðinn mánuð. Þar á eftir kemur Austurland með níu milljónir króna í afþreyingu og átta milljónir á Suðurnesjum. Á Suðurlandi hefur ferðagjöf að andvirði sjö milijónir verið nýtt til afþreyingar, fyrir fjórar milljónir á Vesturlandi og sitthvorar tvær milljónirnar á Norðurlandi og Vestfjörðum.
Í afþreyingarflokknum vega ýmiss konar baðstaðir þungt. Bláa lónið hefur tekið við ferðagjöfum að andvirði átta milljónir króna og Vök Baths á Austurlandi fyrir fjórar milljónir. Sjóböðin á Húsavík og Jarðböðin við Mývatn hafa tekið við tveimur milljónum hvort og Bjórböðin á Árskógssandi hafa fengið eina milljón í formi ferðagjafa. Þá hafa þrjár milljónir runnið til Kraumu við Deildartunguhver og ein milljón króna til Laugarvatns Fontana. Samanlagt hafa handhafar ferðagjafar því nýtt 21 milljón króna í formi ferðagjafar í það að baða sig á þessum stöðum.
Miðað við að hver ferðagjöf er 5.000 krónur þá má ætla að ferðagjöfin hafi nú þegar runnið upp í 4.200 baðferðir.
57 milljónir í mat
Eitthvað þarf fólk víst að borða líka og veitingastaðir landsins hafa tekið við ferðagjöfum að andvirði 57 milljónir króna. Mest fer fyrir höfuðborgarsvæðinu í þeirri tölu, alls hafa veitingastaðir þar tekið við ferðagjöfum fyrir 29 milljónir króna.
Á Suðurlandi hafa verið skildar níu milljónir króna eftir og sama tala á Norðurlandi eystra. Ferðagjöfin hefur verið nýtt fyrir átta milljónir króna á veitingastöðum á Vesturlandi, þrjár milljónir á Suðurnesjum, tvær milljónir á Austurlandi ogo sömu tölu á Norðurlandi vestra. Fæstir snæða fyrir ferðagjöfina á Vestfjörðum en vestfirskir veitingastaðir hafa tekið við um 400 þúsund krónum í formi ferðagjafar enn sem komið er.
Samanlagt hafa landsmenn varið 183 milljónum króna af andvirði ferðagjafar í gistingu, afþreyingu og veitingaþjónustu frá því opnað var fyrir ferðagjöfina í lok júní. 22 milljónir hafa farið í samgöngur, bílaleigubíla og þjónustu ferðaskrifstofa.
Austurland vinsæll áfangastaður
Á heildina litið hafa alls 80 milljónir króna í formi ferðagjafar orðið eftir hjá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu eða rúm 39 prósent heildarupphæðarinnar. 31 milljón eða um 15 prósent hefur farið til fyrirtækja á Suðurlandi. Litlu minna hefur runnið til fyrirtækja á Vesturlandi og Norðurlandi eystra, eða 28 milljónir og 25 milljónir króna, sem nemur 13,7 prósentum til ferðaþjónustufyrirækja á Vesturlandi og 12,2 prósentum til fyrirtækja á Norðurlandi eystra.
Hlutur Austurlands í heildarnotkun á ferðagjöfinni vekur athygli en alls hafa 19 milljónir króna orðið eftir í þeim landshluta eða um 9,3 prósent þess sem nýtt hefur verið af ferðagjöfinni hingað til. Á Suðurnesjum hefur 13 milljónum króna verið varið í formi ferðagjafa, um 6,3 prósent. Einna minnstu verja handhafar ferðagjafar á Norðurlandi vestra, alls níu milljónum, og Vestfjörðum þar sem sjö milljónir hafa orðið eftir hjá ferðaþjónustuaðilum í formi ferðagjafar enn sem komið er. Langminnst fær þó hálendið en ferðaþjónustuaðilar þar hafa tekið við alls rúmlega 600 þúsund krónum.
Af einstökum fyrirtækjum sem taka við ferðagjöfinni hefur mest farið til Hótels Hamars í Borgarfirði, alls 10 milljónir hafa verið nýttar þar. Fast á hæla koma Íslandshótel og Flyover Iceland með níu milljónir króna. Þá hefur Bláa lónið tekið við alls átta milljónum króna og Flugfélag Íslands við sjö milljónum króna.