Vegagerð verður oft mjög áberandi í landslaginu meðan á framkvæmdum stendur og vegstæðið virðist þá mun umfangsmeira en það er í raun. Ástandið breytist síðan mjög þegar verki er lokið með viðeigandi frágangi.
Þetta segir G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptasviðs Vegagerðarinnar, um vegaframkvæmdir í Vesturdal sunnan Hljóðakletta sem vakið hafa hörð viðbrögð náttúruverndarfólks. Fyrrverandi þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfri sagði að hinn breiði og „mjög upphækkaði“ vegur spillti landslaginu og Andri Snær Magnason rithöfundur sagði veginn virðast einhverskonar „fantasía verkfræðings og gröfustjóra“. Verið væri að búa til „uppbyggða hraðbraut eins og markmiðið sé að komast á sem mestum hraða milli staða.“
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, SUNN, hafa seint kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krefjast þess að vegaframkvæmdirnar í Vesturdal og við Hljóðakletta verði stöðvaðar. Segjast samtökin gera „alvarlegar athugasemdir varðandi verklag í kringum framkvæmdaleyfi og umhverfismat og gera kröfu um að betur sé að gætt þegar um svo dýrmætan stað er að ræða“.
G. Pétur, segir við Kjarnann að Vegagerðin eigi eftir að skoða kærumálið og geti því ekkert sagt um það á þessu stigi.
Varðandi vegagerðina sjálfa þá segir hann um að ræða veg sem liggi að bílastæði fyrir hvoru tveggja rútur og bíla. „Vegagerðin í Vesturdal er hefðbundinn vegur að hluta til en að hluta til er hann einungis fjögurra metra breiður og er lagður á nákvæmlega sama stað og sá slóði sem fyrir var,“ segir hann. Hækkun vegarins frá því sem var sé nauðsynleg vegna breyttrar umferðar, til dæmis ferðaþjónustunnar á rútubifreiðum. Auk þess sé hún nauðsynleg svo unnt sé að þjónusta veginn og halda honum opnum meira en ella.
G. Pétur bendir á að í verkinu sé gerð krafa um frágang þannig að svarðlag sem upp er tekið er geymt og því komið fyrir aftur á fláum vegarins og því miðað við að gróður verði sá sami og er á svæðinu og tryggt verði að fláar fái þá ásýnd sem er annars staðar á svæðinu. „Því mun þessi vegagerð verða með allt öðrum brag en nú má sjá meðan unnið er í verkinu,“ segir hann.
Að hluta til er ekkert svarðlag og í þeim tilvikum verði ákveðið í samráði við þjóðgarðsvörð Norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs hvernig frágangi verði háttað, hvort sáð verði grasi, þökulagt eða farin önnur leið til að ná þeirri áferð sem á svæðinu er. „Öll þessi framkvæmd hefur verið unnin í góðu samráði og samvinnu við þjóðgarðsvörð en vegalagning þessa hluta Dettifossvegar hefur nú staðið í nokkuð mörg ár eða síðan þessir áfangar á norðanverðum veginum voru fyrst boðnir út árið 2014.“