Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, heimsótti Danmörku í vikunni, í fyrsta sinn síðan Donald Trump sagðist vilja kaupa Grænland sem vakti hörð viðbrögð og varð til þess að hann hætti við opinbera heimsókn sína til Danmerkur. Möguleg kaup á Grænlandi voru ekki á dagskrá í heimsókn Pompeos en norðurslóðir voru það og áhugi Bandaríkjamannanna á því að efla tengsl sín við Færeyjar, m.a. með því að bjóða þeim að opna ræðismannsskrifstofu í Washington.
Pompeo kom til Danmerkur á miðvikudag til fundar við Mette Frederiksen forsætisráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra. Til viðbótar átti hann fundi með Jenis av Rana og Steen Lynge, utanríkisráðherrum landsstjórna Grænlands og Færeyja.
Pompeo og Jenis av Rana ræddu m.a. hvernig styrkja mætti samband Færeyja og Bandaríkjanna og var m.a. rætt um þann möguleika að opna færeyska sendiskrifstofu í Washington.
Ákveðið var að halda viðræðum þar um áfram síðar. „Á fundinum var stigið stórt skref í átt að því að efla tengslin milli Bandaríkjanna og Færeyja,“ hafa færeyskir fjölmiðlar eftir Jenis av Rana. Rætt hafi verið um öryggismál og tækifæri í menntun, viðskiptum, rannsóknum og fleiru.
Á fundum Pompeo í Danmörku voru málefni norðurslóða ofarlega á baugi. Margir Danir eru enn nokkuð tortryggnir í garð bandarískra stjórnvalda, ekki síst vegna þess að á sama tíma og samskipti Bandaríkjamannanna við Rússland og Kína hafa versnað leita þeir bandamanna annars staðar í nágrenni norðurslóða.
Fyrir heimsókn Pompeo sagði Jenis av Rana að hann óttaðist mjög að norðurslóðir yrðu gerðar af „leiksviði átaka“ heimsveldanna.
Innan við ár er síðan Trump lýsti yfir áhuga sínum á því að kaupa Grænland. Mette Frederiksen sagði þá umræðu „fáránlega“ og Trump er sagður hafa mógðast og sagt ummæli hennar „illgjörn“. Það hefur hins vegar komið í hlut Pompeo að reyna að lægja öldurnar í samskiptum Bandaríkjanna og Danmerkur.
Danski stjórnmálafræðingurinn Kristian Mouritzen segir við Washington Post að dönskum stjórnvöldum hafi brugðið er Trump gaf út yfirlýsingu um áhuga sinn á Grænlandi. Samskipti ríkjanna hafi verið komin í hnút þar til Mike Pompeo hafi tekið að sér hlutverk sáttasemjara.
„Hvergi í heiminum fyrirfinnst ríki sem mun hjálpa okkur meira en Danmörk,“ sagði Pompeo eftir fundinn í Kaupmannahöfn. „Konungsríkið Danmörk“ og Bandaríkin deili sömu gildum sem séu undirstrikuð í því „frábæra starfi sem við höfum gert á Grænlandi“.
Sala Grænlands var hins vegar ekki á dagskrá fundarins.
Í júní var bandarísk ræðismannsskrifstofa opnuð á Grænlandi, í fyrsta sinn síðan 1953. Pompeo segir að þar með hafi bandarísk viðvera, sem hafi legið í dvala of lengi, verið endurvakin. Hann minntist einnig á tilboð Bandaríkjanna um að veita 12 milljónum dala til efnahagsuppbyggingar á Grænlandi.
Bandaríski sendiherrann í Danmörku hefur átt fundi með yfirvöldum í Færeyjum til að ræða opnun ræðismannsskrifstofu í Washington en einnig möguleikana á því að bandaríski sjóherinn fái að nota færeyskar hafnir í aðgerðum sínum á norðurslóðum.
Í mars bauð þessi sami sendiherra Færeyingum aðstoð Bandaríkjanna í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Það féll ekki í sérstaklega góðan jarðveg hjá dönskum þingmönnum sem bentu á að Færeyingar hefðu staðið sig mun betur í baráttunni við faraldurinn heldur en Bandaríkjamenn.