Fornleifafræðingar voru kallaðir á vettvang framkvæmda á Norðurstíg í Reykjavík til að kanna mannvistarleifar. Við uppgröftinn fundust fornleifar; gamall beituskúr, undirstöður undir Hlíðarhús og aðrar mannvistarleifar, líklega um 200 ára gamlar. Búið er að teikna þær upp og merkja og fornleifafræðingar hafa nú lokið störfum.
Unnið er að því að breyta heildaryfirbragði Norðurstígs og ná framkvæmdirnar einnig til Nýlendugötu. Þær eru í tilkynningu frá Reykjavíkurborg sagðar ganga vel þó að ýmislegt hafi komið í ljós, eins og oft vilji verða við framkvæmdir í eldri hverfum borgarinnar.
Við framkvæmdirnar kom einnig í ljós að fráveitulagnir reyndust liggja öðruvísi en teikningar gáfu til kynna og því þurfti að endurhanna fráveituhluta framkvæmdarinnar. Einnig kom í ljós að lagnir fyrir heitt og kalt vatn og rafmagn myndu þarfnast endurnýjunar á næstu árum. Var því ákveðið að gera það nú til að ekki þyrfti að grafa aftur á svæðinu í bráð.
Ofantalin atriði hafa ekki áhrif á áætlaðan heildarframkvæmdatíma verksins.
Í sumar er unnið að því að endurnýja og fegra umhverfi Norðurstígs og Nýlendugötu. Heildaryfirbragð Norðurstígs verður bætt með því að endurnýja yfirborð götunnar og bæta við grjótbeðum með fram götu. Einnig verður gatan snjóbrædd.
Nýlendugata verður með óbreyttu sniði að því leyti að hægt verður að keyra inn á svæðið. Markmið hönnunarinnar er að skapa vinalegt umhverfi með „blævængs“-hellumynstri, bæta lýsingu með fram göngustígnum, auk þess verður vegglistaverkið á gafli Ægisgötu 7 sérstaklega upplýst. Bætt verður við bekkjum og hjólabogum og gróðurbeðum komið fyrir.
Framkvæmdin er á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Veitna ohf. og Mílu ehf. Áætlað er að framkvæmdinni ljúki í október.