Þýskir friðarsinnar og hernaðarandstæðingar hafa knúið danska stórfyrirtækið Lego til þess að endurskoða ákvörðun sína um að gefa út herþyrlulegó. Útgáfan hefði orðið fyrsta Lego-eftirmynd raunverulegra hergagna, en ekkert mun nú verða af þeim áætlunum Lego að dreifa þyrlulegóinu frá og með næsta mánuði. Danska viðskiptablaðið Finans segir frá þessu í dag.
Í upphafi vikunnar mótmæltu friðarsinnar áætlunum Lego fyrir utan verslanir danska fyrirtækisins í Þýskalandi, meðal annars í Berlín og Hamborg. Lego lét snögglega undan, enda kom upp úr krafsinu að útgáfa af tæknilegókubbasettinu Lego Technic Bell Boeing V-22 Osprey hefði strítt gegn siðareglum fyrirtækisins sjálfs, sem hefur svarið þess heit að gefa ekki út eftirmyndir raunverulegra stríðstækja.
„Elskaðu kubba - hataðu stríð“
Mótmælendur frá þýsku friðar- og hernaðarandstæðingasamtökunum DFG-VK stóðu fyrir utan verslanir Lego og mótmæltu því að danski kubbaframleiðandinn væri í samstarfi við hergagnaframleiðendurna, bandarísku fyrirtækin Boeing og Bell, um útgáfu Osprey-legóþyrlunnar.
Slagorð mótmælanna var „Elskaðu kubba – hataðu stríð“ og bentu mótmælendur á að þrátt fyrir að útgáfan sem Lego hafði framleitt og hugðist setja í hillur verslana á næstunni væri björgunarþyrla en ekki stríðstól væri raunin sú að þessi gerð þyrlna væri einungis notuð í hernaði nú um mundir, aðallega af Bandaríkjaher en einnig af japanska hernum.
„Við höfum áralanga stefnu um að gefa ekki út kubba með hernaðarfarartækjum, og því höfum við ákveðið að ganga ekki lengra með útgáfu þessarar vöru,“ segir Lego í svari sínu við fyrirspurn Finans.
Danski miðilinn segir að Lego hafi ekki svarað öllum spurningum sínum um málið, meðal annars varðandi það hvað ætti að gera við allar Osprey-legóþyrlurnar sem þegar hafa verið framleiddar. „Við höfum því miður ekki meira um málið að segja, annað en það að við getum staðfest að varan mun ekki koma út,“ sagði í svari Lego.
Framúrskarandi, segja þýskir friðarsinnar
Forsvarsmenn samtakanna DFG-VK segjast himinlifandi með að aðgerðir þeirra hafi skilað árangri og segir framkvæmdastjóri samtakanna, Michael Schulze von Glaßer, að viðbrögð Lego við mótmælunum hafi verið umfram væntingar.
„Við höfum reynt að hafa samband við Lego nokkrum sinnum frá því í febrúar og óskað eftir yfirlýsingu um áætlun þeirra um hernaðarkubbana. Við buðumst líka til þess að funda með þeim en fengum engin svör,“ er haft eftir von Glaßer í tilkynningu.
Hann bætir við að andstaða samtakanna við vöruna sem slíka hafi einungis stafað af andstöðu við samstarf Lego við Boeing og Bell, en bandarísku fyrirtækin hefðu hlotið greiðslu fyrir samstarfið, ef það hefði gengið alla leið. Ef Lego hefði gefið út þyrlu sem hefði líkst Osprey-þyrlum en ekki verið merkt vörumerkjum hergagnaframleiðandanna hefði það verið í góðu lagi.
Þýsku samtökin segjast, umhverfisins vegna, vonast til þess að allir þeir kubbar sem fóru í framleiðslu þyrlulegósins fái nýjan tilgang. „Það er það góða við legókubba, það má alltaf skapa eitthvað nýtt með þeim,“ segir von Glaßer.