Fjármálaeftirlitið lagði fyrr í sumar 10,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á fjármálafyrirtækið Fossa markaði hf., vegna þess sem FME álítur að hafi verið kaupaukagreiðslur til starfsmanna fyrirtækisins á árunum 2016 og 2017. FME sagði í ákvörðun sinni að fyrirtækið hefði brotið gegn a-lið 57. greinar laga um fjármálafyrirtæki og reglum sem settar eru á grundvelli þess ákvæðis.
Fyrirtækið er ekki sammála ákvörðun FME og segir Haraldur Þórðarson forstjóri þess í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans að stjórn Fossa telji rétt að leita til dómstóla til þess að meta lögmæti sektarákvörðunarinnar.
Málið á sér hartnær þriggja ára aðdraganda og snýst um arðgreiðslur til handhafa svokallaðra B-hlutabréfa í fjármálafyrirtækinu, sem starfar á verðbréfamörkuðum hér á landi og einnig erlendis.
Fram kemur í ákvörðun FME að eigendur bréfanna séu starfsmenn Fossa markaða auk eins stjórnarmanns fyrirtækisins og að eignarhaldið á bréfunum virðist tengjast vissum störfum innan félagsins. Bendir FME meðal annars á að B-hlutir hafa aldrei verið í eigu annarra en þeirra sem starfað hafa fyrir félagið, en hlutaflokknum fylgir réttur til arðs sem hafi á árunum 2016-2019 numið 44,94-46,84 prósentum af hagnaði síðasta rekstrarárs, en hlutfall hlutaflokksins hafi á sama tíma einungis verið á bilinu 7,5-23,6 prósent af heildarhlutafé félagsins samkvæmt samþykktum þess.
FME segir, í stuttu máli, að þessar arðgreiðslur sé ekki hægt að leggja að jöfnu við venjulegar arðgreiðslur af fjárfestingum í hlutabréfum. Áhættan sé mun minni og hagnaðarvon eigenda B-bréfa einnig meiri.
„Frá og með árinu 2016 hefur heildarfjárhæð B-hluta félagsins numið frá kr. 21.250.000 til kr. 30.350.000, en arðgreiðslur til eigenda hlutanna hafa frá og með sama ári numið samtals kr. 344.997.231. Svo mikill munur á fjárhagslegri áhættu og hagnaði bendir til þess að önnur sjónarmið en öflun hlutafjár hafi ráðið ferðinni þegar félagið skipti hlutafé í A og B flokk,“ segir FME í niðurstöðu sinni.
Augljósar kaupaukagreiðslur, sagði FME
Fossar gerðu margvíslegar athugasemdir við aðfinnslur FME, sem sagði hins vegar að það teldi „ekkert í málflutningi Fossa hagga þeirri niðurstöðu að í arðgreiðslum til B-hluthafa hafi falist kaupauki“ í skilningi laga og reglna. FME er afdráttarlaust í þeirri afstöðu sinni og segir að í arðgreiðslunum hafi falist endurgjald fyrir störf í þágu Fossa, þrátt fyrir að „téður kaupauki hafi verið klæddur í búning arðgreiðslna“.
Segir í ákvörðun FME að á árunum 2016 og 2017 hafi hlutfall kaupaukagreiðslna í formi arðs numið á bilinu 52-89 prósentum af árslaunum starfsmanna Fossa markaða sem skráðir voru fyrir B-bréfum.
Málið hefur tekið langan tíma, helst þar sem bið var á því á meðan niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í svipuðu máli fjármálafyrirtækisins Arctica Finance var beðið. Í ljósi þessa er stjórnvaldssektin milduð, en einungis er sektað fyrir brot Fossa gegn lögum og reglum á árunum 2016 og 2017, en ekki árin 2018 og 2019, þegar meðferð málsins var í bið hjá FME.
Arctica Finance var dæmt til þess að greiða 24 milljóna króna sekt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, en áður hafði FME lagt 72 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið.
Fossar ætla að skjóta ákvörðuninni til dómstóla
Kjarninn beindi fyrirspurn til Fossa vegna ákvörðunarinnar, um hvort fyrirtækið myndi una niðurstöðu FME í málinu eða grípa til einhverra aðgerða. Haraldur Þórðarson forstjóri svaraði og sagði að ljóst væri að um „matskennt lögfræðilegt álitaefni að ræða“ og því teldi stjórn Fossa rétt að leita til dómstóla til að meta réttmæti ákvörðunarinnar.
„Í áliti FME segir að almennt banni ekkert starfsmönnum og stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja að fjárfesta í hlutabréfum vinnuveitenda. Einnig er viðurkennt að starfsmenn og stjórnarmenn eigi almennt kröfu um arð af fjárfestingum sínum án þess að þær greiðslur teljist til kaupauka. Hins vegar er svigrúm til að túlka og skilgreina arðgreiðslur af hlutabréfum sem kaupauka þó nokkurt að mati eftirlitsins. Engar viðmiðunarreglur eru til um þetta álitaefni og því er nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem skapast hefur,“ segir forstjórinn í svari sínu.
Engin krafa um úrbætur
Haraldur bætir við að Fossar markaðir hafi alla tíð lagt ríka áherslu á að allir þættir starfseminnar séu í samræmi við lög og reglur sem um fjármálafyrirtæki gilda og átt uppbyggileg samskipti við Fjármálaeftirlitið frá því að félagið hóf starfsemi.
„Línan í þessu máli er hins vegar óljós. Þrátt fyrir ágreining var samt strax tekin ákvörðun um að aðlaga samþykktir Fossa markaða um arðgreiðslur til hluthafa að athugasemdum sem komu frá FME. Það eru því ekki gerðar neinar kröfur um úrbætur í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og því ljóst að Fossar uppfylla nú þegar öll skilyrði laganna eins og þau eru túlkuð af eftirlitinu óháð niðurstöðu í dómsmálinu,“ skrifar Haraldur, en í niðurstöðu FME segir hið sama, að hluthafar Fossa hafi í maí samþykkt nýjar samþykktir, þar sem gert er ráð fyrir miklum breytingum á B-flokki hlutabréfa, sem valdi því að ekki er lengur efni til að fara fram á úrbætur.
Ákvörðun FME er dagsett 10. júní, en var birt opinberlega síðasta föstudag á vef Seðlabankans. Fjármálaeftirlitsnefnd tók nýlega ákvörðun um að framvegis verði slíkar ákvarðanir birtar opinberlega á vef Seðlabankans nema birting sé „talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varði hún ekki hagsmuni markaðarins sem slíks eða ef ætla má að birting hennar valdi hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í samræmi við tilefni ákvörðunarinnar“.