Um 4.000 opinberir starfsmenn í Bandaríkjunum hafa farið fram á bætur í kjölfar þess að hafa smitast af kórónuveirunni í störfum sínum. Einnig hafa ástvinir 60 ríkisstarfsmanna sem létust vegna COVID-19 farið fram á bætur.
Þetta kemur fram í frétt Washington Post í dag en þar er ennfremur bent á að fjöldinn eigi eftir að aukast á næstu vikum samkvæmt skýrslu stofnunar innan vinnumálaráðuneytisins sem gerð var um áhrif COVID-19 á ríkisstarfsmenn.
Í fyrra voru greiddir þrír milljarðar dala í bætur til yfir 200 þúsund opinberra starfsmanna sem höfðu veikst eða slasast við störf sín og voru óvinnufærir af þeim sökum. Í upphafi faraldursins voru opinberir starfsmenn í framlínustörfum, sem þóttu útsettastir fyrir smiti, skilgreindir. Þeir eru m.a. lögreglumenn, sjúkraflutningamenn og starfsmenn heilbrigðisstofnana. Það er fólk úr þessum hópum sem hefur ríkan rétt til bóta ef það sýktist í vinnunni.
Af þeim umsóknum um bætur sem borist hafa vinnumálaráðuneytinu hefur innan við tíu verið synjað.
Í frétt Washington Post segir að gögnum um smit meðal opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum sé ekki haldið miðlægt saman en að ljóst sé að í það minnsta 19 þúsund hafa sýkst við störf sín og tæplega 100 hafa látist vegna sjúkdómsins. Í varnarmálaráðuneytinu einu saman hafa smit greinst hjá yfir 5.000 borgaralegum starfsmönnum frá því í mars. 257 þeirra eru enn á sjúkrahúsi. 32 hafa látist. Um 24 þúsund smit hafa svo greinst meðal bandarískra hermanna.