Á síðustu hundrað árum hefur hitastig á Svalbarða aðeins tvisvar sinnum mælst yfir 20 stig. Það gerðist nú um helgina og þar áður árið 1979.
Á laugardag mældist þar 21,7 stiga hiti á flugvellinum, 0,4 gráðum meira en í fyrra hitameti frá árinu 1979 þegar 21,3 gráður mældust. Athygli vekur að um helgina var því hlýrra á Svalbarða en í Ósló, höfuðborg Noregs.
Í Longyearbyen á Svalbarða, sem er á 78. breiddargráðu, er sumarhitinn yfirleitt á bilinu 13-17 stig þegar hann er mestur. Þar er búið allt árið og talað um að þar sé nyrsta fasta búseta árið um kring í heiminum.
Longyearbyen byggðist fyrst upp í kringum námugröft en í dag heldur þar til fjöldi vísindamanna við ýmsar rannsóknir. Þá hefur ferðaþjónusta verið að ryðja sér þar til rúms í auknum mæli síðustu ár.
„Stórfrétt fyrir margra hluta sakir og aðeins í annað sinn á um 100 árum sem hiti fer yfir 20 stig á Svalbarða,“ skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um hitametið á Facebook-síðu sinni.
En 41 år gammel varmerekord er slått i Longyearbyen på #Svalbard! Mellom kl. 17 og 18 målte vi 21,7 grader, det er 0,4 grader over den gamle rekorden fra 16. juli 1979 🌡️ pic.twitter.com/Kj11HszE1i
— Meteorologene (@Meteorologene) July 25, 2020