Um helgina greindust 23 ný tilfelli af COVID-19 í Færeyjum. Þetta er mesti fjöldi smita sem greindur er á einum degi frá því að faraldurinn braust út í mars. Á eyjunum hafa því greinst 26 virk smit síðustu daga. Þeir sem greindust um helgina eru allir skipverjar á rússneskum togara sem þar lagði að bryggju. Þrjú smit til viðbótar greindust í síðustu viku. Þar var um að ræða fjölskyldu sem var að koma í frí til eyjanna. Fór hún í einangrun í húsi sem hún hafði tekið á leigu.
Togarinn AK-0749 Karelia, lagði að bryggju í Færeyjum fyrir helgi. Einn skipverjinn var lagður inn á sjúkrahúsið í Klakksvík á föstudag með lungnabólgu. Á laugardag kom í ljós að hann var sýktur af COVID-19. Þá var hann fluttur á landssjúkrahúsið í Þórshöfn, segir í frétt færeyska sjónvarpsins. Einn skipverji til viðbótar var um helgina fluttur á COVID-deild landssjúkrahússins.
Haft er eftir Lars Fodgaard Møller landlækni að skipverjarnir hafi annars ekki komið í land í Færeyjum. Hins vegar eru átta manns, sem áttu í samskiptum við áhöfnina, komnir í sóttkví.
Um borð í togaranum eru 77 skipverjar og voru sýni tekin af 30 þeirra um helgina. 23 reyndust smitaðir en sjö sýni reyndust neikvæð. Í frétt Local.fo kemur fram að togarinn hafi farið frá Færeyjum á laugardagskvöld.
Í frétt Kringvarpsins segir að 32.453 sýni hafi verið tekin í Færeyjum frá upphafi faraldursins. 214 hafa reynst sýktir af veirunni og 188 hafa náð bata. Enginn dauðsföll vegna COVID-19 hafa orðið á eyjunum.