Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna, fyrir þemalag sitt í sjónvarpsþáttunum Defending Jacob, sem sýndir eru í streymisveitu Apple.
Emmy-verðlaunin eru uppskeruhátíð bandarísku sjónvarpsakademíunnar og verða veitt í 72. skipti í ár, en ráðgert er að verðlaunaafhendingin fari fram 20. september.
Netflix-þættir fengu flestar tilnefningar til verðlaunanna, eða alls 160 talsins og þáttaraðir frá HBO fengu 107 tilnefningar. Þáttaröð þaðan, Watchmen, fékk alls 26 tilnefningar.
Ólafur var sem áður segir tilnefndur fyrir framúrskarandi þemalag þáttanna, en íslenska tónskáldið Atli Örvarsson semur annars tónlistina við þættina, sem hafa hlotið mikið lof gagnrýnenda.
Ólafur deildi tíðindunum af tilnefningunni með fylgjendum sínum á Twitter fyrr í dag.
I just got nominated for an Emmy Award! 😮😮 pic.twitter.com/nbhgplTtlZ
— Ólafur Arnalds (@OlafurArnalds) July 28, 2020
Hér að neðan má heyra þemalagið spennuþrungna sem Ólafur er tilnefndur fyrir.