Um 700 flugfreyjur og flugþjónar munu klára uppsagnarfrest sinn nú um mánaðamótin og ekki fá endurráðningu hjá Icelandair að svo stöddu. Í apríl sagði félagið upp um 900 flugfreyjum og flugþjónum af um 940 sem þá störfuðu hjá félaginu.
Í samtali við Kjarnann segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, að langsamlega flestir af þeim sem sagt var upp í apríl hafi verið með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þó séu einhverjir sem hafi lengri uppsagnarfrest vegna starfsaldurs.
170 flugfreyjur og -þjónar endurráðin
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair verður endurráðið í stöður um 170 flugfreyja og -þjóna hjá félaginu. Tekið verður mið af „starfsaldri og frammistöðutengdum þáttum“ við endurráðningarnar. Samtals verða því um 200 flugfreyjur og -þjónar að störfum fyrir félagið í ágúst og september, en líkt og áður kom fram var lítill hluti flugfreyja og -þjóna félagsins ekki sagt upp í hópuppsögninni í apríl.
Spurð að því hvort til greina komi að ráða fleiri á næstu vikum segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að ekki sé hægt að segja til um það. Sökum óvissu í millilandaflugi sé bara horft til ágúst og september.
Einskiptiskostnaður vegna kórónuveiru nam 30 milljörðum
Kórónuveirufaraldurinn hefur sem kunnugt er haft lamandi áhrif á flugsamgöngur. Samkvæmt árshlutauppgjöri Icelandair sem birt var í gær fækkaði farþegum félagsins um 98 prósent á öðrum ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Í reikningnum er einskiptiskostnaður félagsins vegna kórónuveirunnar það sem af er ári metinn á 30 milljarða króna. Heildartap félagsins það sem af er ári er tæpir 45 milljarðar miðað við gengi dagsins í dag.
Félagið á nú í viðræðum við fimmtán lánardrottna félagsins vegna hlutafjárútboðs. Stefnt er að því að samningum við lánardrottna ljúki fyrir lok vikunnar og að hlutafjárútboð verði haldið í ágúst.