Stjórnvöld í Frakklandi hafa tilkynnt um nýjar aðgerðir í umhverfismálum en meðal annars á að banna hituð útisvæði við kaffihús og bari. Í frétt BBC er haft eftir Barböru Pompili, umhverfisráðherra Frakka, að henni finnist upphituð útisvæði skjóta skökku við.
Bannið tekur ekki gildi fyrr en eftir að næsti vetur er liðinn, enda eiga fyrirtæki í veitingarekstri í vök að verjast í Frakklandi, líkt og víða annars staðar, vegna kórónuveirufaraldursins. Þar að auki verður skylt að halda dyrum loftkældra bygginga sem opnar eru almenningi lokuðum til þess að spara orku.
Þrjú af hverjum fjórum kaffihúsum með hitað útisvæði
Barbara segir það vera rangt af fyrirtækjum að loftkæla stræti borganna á sumrin með því að halda dyrum sínum opnum í þeim eina tilgangi að auðvelda viðskiptavinum að ganga inn um þær. Það sama megi segja um kaffihús sem halda útisvæðum sínum upphituðum á veturna til þess að ylja viðskiptavinum á meðan þeir sötra á heitu kaffi sínu, að mati Barböru.
Samkvæmt þarlendum verslunarsamtökum eru þrjú af hverjum fjórum kaffihúsum í París með upphitað útisvæði. Nú þegar hafa upphituð útisvæði heyrt sögunni til í nokkrum frönskum borgum en Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, vill bíða með bannið, því það gæti haft slæm áhrif á rekstur kaffihúsanna.
Banna kola- og olíuofna til húshitunar
Barbara Pompili var skipuð umhverfisráðherra fyrr í mánuðinum af forsætisráðherranum Jean Castex, sem einnig tók við embætti fyrr í þessum mánuði. Jean hefur heitið 20 milljónum evra, eða rúmum þremur milljörðum króna, í loftslagstengdar fjárfestingar. Þær fjárfestingar eru hluti af umfangsmeiri efnahagsaðgerðum sem ætlað er að örva hagkerfi Frakka.
Aðgerðir umhverfisráðherrans eru fengnar frá eins konar þjóðfundi um umhverfismál en hann sátu 150 einstaklingar sem valdir voru að handahófi. Í þeim má einnig finna áform um þjóðgarð. Þá eru franskir húseigendur hvattir til að huga að einangrun í húsum sínum en uppsetning nýrra kola- eða olíuofna til kyndingar verður bönnuð í borgum og takmörkuð í dreifbýli.