Þessir fjórir einstaklingar sem greindust í gær smituðust allir hér innanlands og eru því innanlandssmitin orðin 18.
Í gær voru staðfest smit 24 og af þeim höfðu fjórtán einstaklingar smitast hér á landi. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði við RÚV í gær að hann væri uggandi út af stöðunni og óttaðist að veiran væri aftur að komast á flug. Benti hann á að þrír af þeim sem væru með COVID-19 væru sýktir af veiru af sama stofni en virtust ekki tengjast. Því væri mögulegt að smit í samfélaginu væri útbreiddara en menn héldu.
Íslensk erfðagreining hefur aftur tekið að sér það hlutverk að skima fyrir veirunni í samfélaginu. Þá hefur hún einnig það verkefni að raðgreina veiruna í þeim sýnum sem hún finnst til að komast að uppruna þeirra.
Í gær voru 173 í sóttkví. Í dag er fjöldinn orðinn 187.
Alma Möller landlæknir sagði í gær að hinir sýktu sýndu ekki alvarleg einkenni en Kári benti á að í einhverjum tilfellum hafi þeir reynst með mikið magn af veirunni í líkamanum og því verið mjög smitandi.
Í gær voru tekin 118 sýni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Frá því fyrsta smitið greindist hér á landi 28. febrúar hefur 1.861 greinst með COVID-19 hér á landi.
Í dag kemur í ljós, eftir fund heilbrigðisráðherra með landlækni og fulltrúum almannavarna og sóttvarnalæknis, hvort að viðbúnaðarstig verði aftur hækkað á neyðarstig og hvort gripið verði aftur til hertra aðgerða.