Hagnaður Arion banka af áframhaldandi starfsemi á öðrum ársfjórðungi nam rúmum 4,95 milljörðum króna og jókst um 76 prósent frá sama ársfjórðungi í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 10,5 prósent, í samanburði við 4,3 prósent á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Óvissa vegna COVID-19 er sögð viðvarandi, í tilkynningu frá bankanum til Kauphallar í dag.
Bankinn lýsir jákvæðum viðsnúningi í rekstri sínum og segir Benedikt Gíslason bankastjóri að það sé „sérstaklega ánægjulegt“ að markmiðum um 10 prósent arðsemi hafi verið náð, þar sem eiginfjárstaða bankans sé afar sterk og langt umfram kröfur eftirlitsaðila.
„Regluleg starfsemi bankans þróast með jákvæðum hætti á fjórðungnum en óvenjulega háar fjármunatekjur, bæði af hluta- og skuldabréfum, hafa mjög jákvæð áhrif á afkomuna. Það er því áfram forgangsatriði að bæta enn frekar okkar reglulegu starfsemi,“ er haft eftir Benedikt í tilkynningu bankans.
Bankinn hefur í heildina hagnast um rúma 2,7 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, en tapið á fyrsta ársfjórðungi nam um 2,2 milljörðum króna og arðsemi eiginfjár var þá neikvæð um 4,6 prósent.
Faraldurinn muni setja mark sitt á starfsemina
„Þrátt fyrir gott uppgjör á öðrum ársfjórðungi er mikilvægt að taka fram að enn er umtalsverð óvissa í starfsumhverfi bankans vegna Covid-19. Faraldurinn, þróun hans og áhrif á bæði innlent og alþjóðlegt efnahagslíf mun áfram setja mark sitt á starfsemina,“ segir Benedikt bankastjóri í ávarpi sínu og bætir við að óvissan snúist fyrst og fremst að þróun eignasafns bankans.
„Verulega dró úr niðurfærslum útlána á öðrum ársfjórðungi frá þeim fyrsta en við verðum að hafa í huga að skapast getur þörf á frekari niðurfærslum á meðan við göngum í gegnum núverandi efnahagsörðugleika. Fjárhagslegur styrkur Arion banka hvað varðar eigið fé og lausafé er hins vegar það mikill að bankinn er í góðri stöðu til að takast á við þær aðstæður sem eru uppi,“ segir Benedikt.
17 milljarðar í ný íbúðalán
Benedikt segir að umtalsverð eftirspurn hafi verið íbúðalánum, bæði nýjum lánum og lánum í tengslum við endurfjármögnun, sem gera megi ráð fyrir að tengist lægra vaxtastigi hér á landi. Hann segir bankann alls hafa lánað 17 milljarða króna í ný íbúðalán á öðrum ársfjórðungi.
„Jafnframt fara stuðningslán til fyrirtækja, sem eru hluti af úrræðum stjórnvalda og hafa ríkisábyrgð að hluta eða öllu leyti, vel af stað og gengur vel að afgreiða þau lán til viðskiptavina,“ segir Benedikt.